Listin að lifa

er það sem ég æfi mig í þessa dagana. Ég er alltaf þunglynd, mismikið sem betur fer, og smám saman æfist ég í að tækla þunglyndið, yfirleitt umhugsunarlaust en ef það eykst þarf vissa vandvirkni á hverjum degi til að láta sjúkdóminn ekki trufla líf mitt of mikið.

Það sem plagar mig einkum núna eru draugatilfinningar og “jórturhugsanir” (ruminative thoughts) sem þeim fylgja. Svona draugatilfinningar eru tilfinningar sem kvikna út í bláinn, án þess að hægt sé að tengja þær við atvik eða tilefni eða þær kvikna af einhverju ómerkilegu tilefni og eru í engu samræmi við tilefnið: Eins og draugaverkir í löngu horfnum útlim.

Það sem hægt er að gera til að slá á þetta er að beita heilbrigðri skynsemi, hugsanaleiðréttingu eins og kennt er í HAM. Sem dæmi mætti taka að á föstudaginn fyrir viku síðan ákvað ég, í fljótræði, að beita hallærisleiðréttingu á stykki sem nemandi var að prjóna: Lykkjurnar voru of margar, nemandinn búinn að rekja upp einu sinni eða tvisvar áður, munstrið passaði ekki og ég ákvað að prjóna bara saman tvær lykkjur svo munstrið passaði. Svo helltist yfir mig viðbjóðsleg tilfinning, líktist eiginlega mest þeirri skömm og algeru örvæntingu sem alki finnur fyrir daginn eftir að hafa delerað rækilega á fylleríi! Hvernig gat ég gert þetta! Hvernig í ósköpunum datt svona aula eins og mér í hug að ég gæti kennt prjón! Hvað segja amma og mamma og langfrænkur nemandans þegar þær komast að þessu! hugsaði ég og hugsaði og hugsaði ekki um neitt annað fram á sunnudag, þegar ég talaði um þetta á AA fundi og tilfinningin hvarf. Nú er ég ekki að mæla því bót að vanda ekki prjónaskapinn og lofa að prjóna aldrei aftur saman tvær lykkjur á peysubol ef munstrið passar ekki … en það að finnast maður ekki geta horft framan í nokkurn mann framar út af svonalöguðu er vitaskuld ekki normal og bendir til þess að heilinn sé ekki alveg í lagi þá stundina.

Í þessari viku tók ég eftir að einn samstarfsfélagi minn leit eitthvað undarlega á mig á kennarastofunni, eða mér fannst eitt augnablik að kolleginn liti undarlega á mig. Svo fór hausinn á spinn: Líklega finnst henni að ég tali allt of mikið => líklega finnst henni og mörgum öðrum að ég sé algerlega óþolandi => líklega eru allir að hugsa: Af hverju var hún að koma aftur til starfa? => o.s.fr. Hugsanir um þetta spóluðu hring eftir hring í hausnum á mér og það þýðir ekkert að segja sér að þetta sé bara vitleysa í manni, einföld skilaboð þannig stoppa ekki tilfinninguna um að vera óalandi og óferjandi og utan við mannlegt samfélag.

Svo ég tók mig taki og hugsaði skipulega um þetta. Hversu líklegt er að fólki finnist ég tala of mikið? Heldur ólíklegt að margir séu að spá í það, það kjaftar hver tuskan á mörgum á kennarastofunni og ég sit þar einungis í matartíma fjórum sinnum í viku og ólíklegt að fólk sé almennt með tímamælingu á tali akkúrat í þeim matartímum. Kannski tala ég of mikið af því þetta er um það bil eina tækifæri dagsins til að tala við aðra en ketti og só what? Og kolleginn sem horfði á mig var kannski að hugsa um eitthvað allt annað, raunar finnst mér það trúlegast. Svo af hverju ætti ég að vera með móral yfir einhverju sem ég held að einhver hafi kannski verið að hugsa en var kannski alls ekkert að hugsa það? Og hvað geri ég sjálf ef mér finnst einhver tala of mikið? Raunar geri ég ekki neitt og fólk fer sjaldnast í taugarnar á mér … en ef svo bæri við myndi ég væntanlega bara færa mig … Svo get ég engan veginn tekið ábyrgð á hvað öðrum finnst um eitthvað í umhverfinu og ætti að hætta að reyna að lesa hugsanir enda les ég þær örugglega jafn vitlaust og aðrir … O.sfr. Þannig er hugsanaleiðrétting 😉 Og svona eru jórturhugsanir: Manni dettur eitthvað óþægilegt í hug eitt andartak en öfugt við normal þankagang spólar maður þessa óþægindakennd aftur og aftur í hausnum eins og bilaða grammófónplötu í gamla daga og spinnur sig niður í verulega bágt sálarástand.

Það er frekar leiðinlegt að þurfa að stunda hugsanaleiðréttingu á hverjum degi. En það er nauðsynlegt í þunglyndi. Flestir kannast við eitthvað svona sem ég lýsti að ofan en það sem er smotterí og kemur sjaldan fyrir heilbrigt fólk margfaldast og verður meiriháttar í þunglyndi. Af því allir hafa reynslu af því að vera svolítið domm og líða illa einstaka sinnum en ná að rífa sig upp með tiltölulega lítilli fyrirhöfn eiga sömu allir stundum erfitt með að skilja af hverju þunglyndir geta ekki gert þetta sama, gera sér ekki grein fyrir margföldunaráhrifunum sem fylgja sjúkdómnum. Alveg eins og sá sem hefur fengið harðsperrur en líður annars alla jafna prýðilega getur illa sett sig í spor fólks með slæma gigt.

2 Thoughts on “Listin að lifa

  1. Hrönn on September 8, 2013 at 18:35 said:

    Góður pistill hjá þér. Ég var næstum búin að gleyma hvar þú bloggar 🙂

    Gangi þér vel bæði með hugsanaleiðréttingar og prjónakennslu ♥

  2. Bryndís on October 12, 2014 at 11:13 said:

    Þessa daganna er eg í kasti. Eg er með þráhyggju og eg kannast mjög vel vil hugsanaskjekkjur, hugsanir geta gert mann geðveikan. Eg veit þær eiga ekki við rök að styðjast en þær koma upp og það er eins og eg sé með hringekju í heilanum. Ætla að athuga hvort ekki væri sniðugt að skipta um lyf, er á effexor.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation