Hringur Aðalsteins konungs, skalli Skalla-Gríms o.fl.

Við í íslenskumafíunni í FVA höfum dálítið rætt um þáttinn Ferðalok – Silfur Egils Skallagrímssonar sem sýndur var á sunnudagskvöld á RÚV. Þetta var skemmtilegur og fróðlegur þáttur og ég hlakka til að sjá næstu þætti. En eins og fleiri kollegar mínir hér á Skaga kann ég Egils sögu næstum utanbókar. Og mér kom sumt í þessum þætti spánskt fyrir sjónir.

Það sem kom kannski mest á óvart var senan þegar Aðalsteinn Englakonungur réttir Agli hring á sverðsoddi sem í Egils sögu er lýst þannig:

Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af.

giftingarhringur Aðalsteins konungs?Yfirleitt hefur þessi lýsing verið skilin sem svo að Aðalsteinn konungur hafi rétt digran armhring yfir eldinn. Skömmu áður hafði Egill greftrað bróður sinn og spennt gullhring á hvora hönd honum. Vilji menn leggja lýsingu á karakter Egils út á versta veg má skilja háttalag hans í veislu Aðalsteins sem merki um eftirsjá Egils eftir að hafa splæst þessum gullhringjum á lík Þórólfs, í augnabliks geðshræringu, því Agli var einkar sárt um fé og dýrgripi. Orðalagið „að spenna hring á hönd“ eða „draga hring á hönd“ bendir óneitanlega til armbands fremur en fingurgulls, hefði Egill ekki öðrum kosti „dregið hring á fingur sér”? Og verðmæti gjafar Aðalsteins minnkar auðvitað gífurlega ef hann splæsti bara baug á borð nútíma giftingarhring. (Í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Hvers vegna breyttist orðið hringur í armband, og fingurgull í hring?“, á Vísindavefnum, má fræðast um rugling milli orðanna hringur og baugur í tímans rás, sem er raunar ekki sérlega upplýsandi varðandi þetta atriði nema til að staðfesta að orðið hringur þýddi mjög oft armband.)

Annað sem einnig kom okkur stórneytendum Egils sögu á óvart var hve Skalla-Grímur var vel hærður fram á sinn síðasta dag. Þegar hann krefur Egil um silfur Aðalsteins konungs blasa við hrokknir lokkar. Fer lítið fyrir „skalla þeim hinum mikla“ sem var „fullur upp úlfúðar“ mörgum áratugum áður. Raunar er gersamlega óskiljanlegt af hverju Grímur fékk þetta viðurnefni sé miðað við það sem sást í þættinum.

Þeir feðgar eru báðir miklir myndarmenn í þættinum, eiginlega talsvert sjarmerandi, sem er ekki í samræmi við lýsingar Egils sögu. Egill lítur meira að segja út eins og velhært og sprækt unglamb þegar hann fer að husla silfrið sitt, þá áttræður, skv. Egils sögu búinn að missa sjón, heyrn að hluta og sídettandi, karlanginn …

armhringur frá v�kingaöldNú kann einhverjum að finnast að ég sé að agnúast út í smáatriði í annars góðum þætti. En mér finnst að vilji menn fjalla um Íslendingasögur á annað borð sé lágmarkskrafa að þeir hafi lesið þessar sögur og viti skil á frægustu lýsingum í þeim. Ef menn nenna því ekki er best að sleppa því að sýna atburði úr þeim og gera annars konar heimildaþætti, t.d. um fornleifar.

Myndir eru skjámynd úr þættinum sem um er rætt í færslunni og mynd af  þremur armbaugum úr silfri frá víkingaöld sem fundust á Englandi. Ljómandi fallegan víkingaaldar-armhring úr gulli má sjá hér.
 
 
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation