Viðhorf Landlæknis og HVE til eftirá-hagræddrar sjúkraskrá og vanrækslu

Í dag sendu bæði Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Geir Gunnlaugsson landlæknir frá sér yfirlýsingar vegna umfjöllunar Kastljóss um fæðingu Sveindísar Helgu, dóttur Hlédísar Sveinsdóttur. Hluti umfjöllunar Kastljóss snérist um hrópandi misræmi milli þeirra gagna sem HVE sendi Landlækni og sömu gagna sem HVE afhenti Hlédísi.

Eitt af hlutverkum Landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki. Það vekur því furðu að landlæknir skuli ekki sjá ástæðu til þess að kanna eða hafa eftirlit með vægast sagt einkennilega færðri sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE. Fjöldi rangfærslna lýtur allur í sömu átt, nefnilega að gera hlut spítalans skárri en hann var. Raunar kemur skýrt fram hjá lögfræðingi Hlédísar í viðtali i Kastljósi að hefði Landlæknir ekki haft myndband af fæðingunni undir höndum hefði hann (eða sérfræðingur sá sem Landlæknir kallaði til) ekki getað komist að þeirri niðurstöðu að vanræksla starfsfólks HVE hefði valdið þeim hræðilega skaða sem barnið beið í fæðingunni. Ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu sé byggt á gögnum þeim sem HVE sendi Landlækni.

Í 5. grein Laga um sjúkraskrár 55/2009 segir:

  • Við sérhverja færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá skal koma fram nafn þess sem skráir, starfsheiti hans og tímasetning færslu. Viðbót, leiðrétting, breyting eða eyðing sem gerð er á færslu sjúkraskrárupplýsinga skal ætíð vera rekjanleg.
  • Sjúkraskrárupplýsingar skulu færðar jafnóðum eða að jafnaði innan tuttugu og fjögurra stunda frá þeim tíma er þeirra var aflað.

Eytt úr sjúkraskráÞað er því ótrúlegt að sjá í sjónvarpi að mikilvægum hluta er eytt úr sjúkraskrá áður en hún er send til Landlæknis og það löngu eftir að skráin var færð.  Þetta sást mætavel í fyrrnefndum Kastljósþætti og birt var skjámynd sem sýndi muninn við síðustu færslu mína. Hlutinn sem þurrkaður var út segir frá ástandi barnsins rétt eftir fæðingu og krampaköstum sem komu síðar. Til hægri sést lítil mynd af stykkinu sem einhver hjá HVE þurrkaði út úr sjúkraskránni, sé smellt á myndina birtist hún stærri (hvort tveggja er skjámynd úr Kastljósi). Hver voru rök HVE fyrir að eyða þessum upplýsingum áður en skjalið var sent til Landlæknis? Og finnast Landlækni þessi vinnubrögð í góðu lagi?

Edward Kiernan yfirlæknir, Birna Gunnarsdóttir ljósmóðirÍ einnar síðu bréfi yfirlæknis fæðingardeildar (kvennadeildar) HVE úir og grúir af villum. Hluta þeirra er hægt að sanna með myndbandsupptökunni af fæðingunni. Svoleiðis villa er lituð á myndinni af bréfi yfirlæknisins (sé smellt á myndina kemur upp stærri útgáfa, þetta er skjámynd úr Kastljósþætti um málið.) Þar er ekki minnst á mónítor-ritið sem sýnir svo ekki verður um villst að barnið leið mikinn súrefnisskort í talsverðan tíma en það fæddist.

Ýmsar fleiri rangfærslur eru í gögnum frá HVE til Landlæknis. Má nefna að alls staðar er því haldið fram í gögnunum að legvatn hafi verið tært sem það var ekki, ýmist er aðstoðarlæknirinn (nýútskrifaður læknakandídat) viðstaddur fæðinguna eða ekki, yfirlæknirinn segist ekki hafa komið að fæðingunni en gerði það o.fl. Einna alvarlegustu “breytingarnar” sem starfsfólk HVE gerir eftir á og sendir Landlækni eru nýjar útgáfur af svokölluð APGAR-skori litlu stúlkunnar sem fæddist mjög sködduð af súrefnisskorti. Steinbergur Finnbogason lögfræðingur segir um þetta atriði, í Kastljósi 19. febrúar:

Skv. gögnunum þá erum við með þrjú mismunandi APGAR skor eftir eina mínútu. Það er í einni skýrslu ekkert merkt inn og gæti þá verið hvað sem er, í annarri skýrslu sem virðist koma seinna fram að þá er búið að færa inn töluna þrír í APGAR og í enn öðru bréfi sem er sent til Landlæknis er því haldið fram að APGAR skor hafi verið fimm. Og í sjálfu sér ef APGAR skor er fimm þá er ekkert að, ef það er þrír þá er eitthvað að en kannski ekkert eitthvað svakalegt en samkvæmt vídeóinu og seinna framkomnu áliti þá hefði barnið í mesta lagi átt að fá einn í APGAR skor.

Og niðurstaða hans um rangfærslur í gögnum HVE sem send voru Landlækni er:
 

Þær breytingar sem við sjáum þar þær miða að því … hugsanlega miða þær að því að fegra myndina.

Í yfirlýsingu Landlæknis í dag segir að málið hafi verið rannsakað ítarlega sem hafi leitt til faglegrar niðurstöðu. Landlæknir hafi beint þeim tilmælum til HVE að halda fund með Hlédísi Sveinsdóttur og biðja hana formlega afsökunar á þeim mistökum og þeirri vanrækslu sem hún og nýfætt barn hennar urðu fyrir. – Þess ber að geta að framkvæmdastjóri lækninga á HVE hélt þennan fund með Hlédísi einu og hálfu ári eftir hina afdrifaríku fæðingu og var það í fyrsta sinn sem henni var gefið tækifæri til að funda með aðilum málsins.- Um hinar einkennilegu breytingar sem HVE gerði á sjúkraskrá eftir á og um rangfærslur í gögnum frá stofnuninni segir Landlæknir í þessari yfirlýsingu:

[…] skal tekið fram að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ábyrgðar- og umsjónaraðili þeirrar sjúkraskrár sem um ræðir og getur gert á henni leiðréttingar skv. lögum um sjúkraskrár, sé sýnt fram á að upplýsingar í henni séu bersýnilega rangar eða villandi.

Nú væri áhugavert að Landlæknir upplýsti hvort eyða fyrir APGAR-skor sé svo “bersýnilega röng og villandi” að hún gefi umsjónarmanni sjúkraskrár, HVE, sjálfkrafa tilefni til að skálda þar inn ótrúlegar tölu talsvert löngu eftir fæðinguna. Sömuleiðis er áhugavert að vita skoðun Landlæknis á öðrum röngum upplýsingum sem HVE lét embætti hans í té, voru þær að hans mati upplýsandi fyrir málið?

Landlæknir lýkur yfirlýsingu sinni á skýrri niðurstöðu málsins, að mati embættisins, og viðurlögum:

Heilbrigðisstarfsmönnum urðu á mistök og vanræksla við fæðingu barns Hlédísar. Þessari niðurstöðu hefur verið fylgt eftir af festu gagnvart stjórnendum sjúkrahússins og einstökum starfsmönnum.

Starfsmennirnir sem í hlut eiga starfa allir áfram við HVE nema aðstoðarlæknirinn (að ég held). Ljósmóðirin sinnir enn fæðandi konum, yfirlæknirinn er kjur á sínum sessi sem og framkvæmdastjóri lækninga. Bæði Landlæknir og HVE neita að upplýsa hvernig niðurstöðunni um mistök og vanrækslu starfsmanna HVE hafi verið fylgt eftir “af festu”. Hlédísi Sveinsdóttur hefur ekki verið formlega tilkynnt um þau viðbrögð. Það má svo sem giska á að einhverjir sem í hlut áttu hafi fengið formlega áminningu, sem skiptir engu einasta máli fyrir ríkisstarfsmann (nema standi til að reka hann hvort sem er og þarf þá að safna tveimur formlegum áminningum fyrst).
 

HVE harmar vitaskuld eigin mistök í sinni yfirlýsingu í dag en minnist í henni ekki á vanrækslu starfsmanna sinna. Stofnunin segist hafa endurskoðað “allar verklagsreglur tengdar þjónustu við fæðandi konur […] og [að] eftirlit með að þeim sé framfylgt skerpt. Þá voru settar reglur sem takmarka mjög  fjölda aðstandenda við fæðingar.”

Síðari málsgreinin stingur í augu því erfitt er að sjá hvernig fjöldi aðstandenda við fæðingu hefur haft áhrif í þeim mistökum og vanrækslu sem hér var um að ræða. Skýringin er væntanlega sú að í sinni greinargerð til Landlæknis kvartaði ljósmóðirin undan skvaldri í móður og vinkonum Hlédísar sem voru viðstaddar fæðinguna og tengir síðan vinkonuna sem hélt á myndbandsupptökutækinu við vinnustað hennar en hún vinnur hjá fjölmiðlafyrirtæki. Nú veit ég ekki hversu viðkvæmar ljósmæður eru fyrir skvaldri en ef þetta á að vera afsökun fyrir því að hún fylgdist ekki með síritanum sem sýndi súrefnisskort ófædds barnsins eða að ástand barnsins þegar það fæddist fór framhjá henni held ég að önnur störf myndu líklega henta þessari konu betur. HVE hefur sem sagt komið auga á það ráð að takmarka fjölda leikmanna við fæðingu sem úrræði til að koma í veg fyrir mistök og vanrækslu starfsmanna sinna á fæðingardeild, skv. yfirlýsingu HVE í dag.

HVE telur staðhæfingar um að sjúkraskrá hefði verið hagrætt, atriðum eytt og með því brotin lög vera órökstudda og villandi framsetningu og færir sem rök fyrir því að Landlæknir hafi ekki skipt sér neitt af þeirri hagræðingu staðreynda.  Í yfirlýsingu HVE er ekki vikið orði að því stofnunin hyggist bæta skráningu upplýsinga í sjúkraskrá eða skerpa eftirlit með því að þeim sé ekki breytt löngu seinna. Forstjóri HVE sem skrifaður er fyrir yfirlýsingu stofnunarinnar í dag segist, í lokin, fagna opinberri rannsókn sem skeri úr um hvort rangfærslur í sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE til landlæknis varði við lög.

Sem viðskiptavinur HVE er ég Guðjóni Brjánssyni hjartanlega sammála og finnst mikilvægt að lögregla skeri úr um hversu mikið megi edítera sjúkraskrá og hversu mikið halla réttu máli í öðrum gögnum frá heilbrigðisstofnun sem send eru Landlækni þegar kvartað er til hans; Hvað teljast eðlilegar leiðréttingar eftir á og hvað fellur undir skjalafals?

Og satt best að segja myndi ég ráðleggja hverri þeirri konu sem ætlar að fæða barn á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness að sjá til þess að fæðingin sé tekin upp myndband, af þöglum myndatökumanni auðvitað …  

Viðbót 28. febrúar: Í dag birtist önnur yfirlýsing frá HVE þar sem mismunur í sjúkraskrá er skýrður og fjallað um fleira þessu máli tengt.
  
  
  
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation