Dauðinn og lífið

Það eru fá feimnismál eftir í okkar nútíma. Mætti segja að dauðinn einn væri feimnismál, um hann er ekki talað, um hann er forðast að hugsa. Samt er það svo að lífið væri einskis virði, hvunndagslegt og ómerkilegt, ef því lyki ekki með dauða. Það sem gefur lífinu gildi, gerir lífsleiðina eftirsóknarverða, er dauðinn sem bíður handan hornsins.

Undanfarið hef ég, eins og fjöldi fólks, fylgst með bloggi Vilborgar Davíðsdóttur og viðtölum við hana. Hún leyfir okkur hinum að fylgjast með síðustu dögum eiginmanns síns. Blogg Vilborgar er einstakt. Þótt umfjöllunarefnið sé hræðilega sorglegt skrifar hún af æðruleysi og kærleik. Ég get ekki sett mig í hennar spor og ég beygi af í hvert sinn sem ég les færslu. Fegurðin ríkir í þessum færslum, einlægni og virðing fyrir óumflýjanlegum dauða og lífinu sjálfu. Það þarf einstaka mannkosti til að skrifa slíkan texta. Þótt við hin séum einungis lesendur er sérhver færsla okkur umhugsunarefni og auðgar líf okkar, ekki hvað síst af því að Vilborg sýnir okkur að dauðinn, mesti harmurinn, eykur gleðina af lífinu. Hún minnir okkur á að lifa lífinu í árvekni.

Í gamla daga, áður en ævintýri voru aðlöguð rétthugsun, enduðu þau stundum illa. Í ævintýri Vilborgar sigrar drekinn illi. En orðstír hetjunnar lifir áfram þótt hetjan bindi sér nú helskóna.

Megi Drottinn gefa hetjunni ró og hinum líkn sem lifa.
 
 
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation