Ósjálfrátt

hefur sagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur verið mér ofarlega í hug frá því ég kláraði hana um síðustu helgi. Ég heillaðist gersamlega af þessari bók og horfði með angist á ólesnum síðunum fækka og fækka … þetta er ein þeirra bóka sem maður óskar sér að klárist aldrei.

   

Nú fylgist ég ekki mikið með umfjöllun um bækur, vil frekar lesa þær sjálf og mynda mér skoðun á þeim. En ég hef það á tilfinningunni að því hafi einkum verið hampað að Ósjálfrátt fjallaði um hvernig skáld verður til, hvernig bók eða rithöfundur fæðist. Vissulega fjallar hún um það en kannski mætti frekar segja að bókin fjallaði um gildi þess að skrifa, hvað það er sem gerir skrif eftirsóknarverð og frelsandi. Fólk sem venur sig á skriftir kannast mætavel við þetta, maður þarf ekki að vera skáld til þess, maður þarf ekki einu sinni lesanda því skrifin ein og sér gera öllum gott. Fáar konur hafa þó reynsluna af því að skrifa í sig barn eins og Eyja 🙂

Í Ósjálfrátt býr svo ótal margt. Það sem höfðaði fyrst og fremst til mín, fyrir utan aðalersónuna, var lýsingin á fjölskyldu Eyju og lýsingin á alkóhólisma; alkóhólistum og áhrifum  sjúkdómsins á alla þá sem lifa og hrærast kringum alkann. Oft á tíðum er lýst kaldranalegum aðstæðum og nöprum uppákomum en frásögnin litast ævinlega af hlýju og húmorinn er ekki langt undan. Það er undirstrikað rækilega að lífið er ekki svarthvítt, að ekki er hægt að skipta fólki í sökudólga og fórnarlömb, að hver er sinna gæfu smiður en er jafnframt háður því umhverfi sem hann hrærist í og erfðum.

Í mínum huga er Ósjálfrátt saga um konur. Hún er sagan af Eyju, systur hennar, móður hennar og ömmu, meira að segja langmæðgur koma við sögu, og sagan af konunum í kringum þær. Þessar konur hafa sína galla enda af holdi og blóði en kostirnir yfirskyggja gallana. Örlög og líf þessara kvenna fléttast í rúmi og tíma. Sífellt tímaflakk í bókinni kemur ekki að sök heldur virkaði fullkomlega eðlilegt, hvort sem um var að ræða endurlit eða kafla sem gerðist í framtíð aðalsögutímans.

Það hvarflaði reyndar að mér við lesturinn að einhverjir myndu hvorki skilja haus né sporð í þessari frásögn. Ég held að til þess að skilja Ósjálfrátt þurfi að hafa einhverja svipaða upplifun og þær sem bókin lýsir en það kann auðvitað að vera minn misskilningur.  Aðalatriðið er að ég get glaðst yfir að hafa fengið tækifæri til að lesa svona frábæra bók sem situr eftir í huga mér og fyllir mig hlýju. 
 
 

10 Thoughts on “Ósjálfrátt

  1. Það er slæmt þegar bækur fá góða dóma. það hækkar verðið alltof mikið á bókamörkuðunum 🙂 En takk fyrir álitið harpa

  2. Helgi Ingólfsson on January 30, 2013 at 20:40 said:

    Forvitnileg og áhugavekjandi umsögn, Harpa. Mundirðu segja að “Ósjálfrátt” væri bók við hæfi miðaldra karlmanns, sem skilur ekki kvenfólk generelt, en leyfir sér enn stöku sinnum að stíga upp í strætó Bakkusar? 🙂

  3. Absólútt, Helgi, þú ert einmitt maður til að falla fyrir Ósjálfrátt! Og ef þú lest bókina muntu skilja konur miklu betur á eftir 🙂

  4. Þ. Lyftustjóri on January 31, 2013 at 15:53 said:

    Harpa mín! Þetta myndirðu ekki segja ef þú þekktir þær konur sem hann Helgi umgengst svona utan vinnu; og þá sérstaklega í hjónaklúbbnum Guðmundi sem hann er limur í.

  5. OMG! Ert þú líka í þessum klúbbi, Lyftustjóri?

  6. Þ. Lyftustjóri on January 31, 2013 at 18:17 said:

    Ekki verður því neitað að ég kannist lítillega við limi téðs klúbbs en þó fremur við kallana en frúrnar; enda vegir kvenfólksins ekki rannsakanlegir fremur en Drottins almáttugs. Þó held ég einhverjar þeirra hafi farið á útsölur að undanförnu.

  7. Helgi Ingólfsson on January 31, 2013 at 20:41 said:

    Einkennileg umræða hérna inni. Ég hefði haldið að hún myndi snúast um bókina “Ósjálfrátt” – hefur þú lesið hana, hr. lyftustjóri, og ef svo, hvað fannst þér þá um hana?

    P.S. Annars hefi eg öruggar heimildir fyrir því að í hjónaklúbbi þeim, sem hr. lyftustjórinn tilheyrir, hafi hann ásamt öðrum limi lagt á ráðin um að koma á fót verslun og hefja hana á útsölu, til að auka líkur á að þeir fengju að hitta oftar spúsur sínar, sem ella voru sjaldsénar.

  8. Þ. Lyftustjóri on January 31, 2013 at 22:38 said:

    Um bókina? Nei, en ég hef komið til Siglufjarðar, sagði konan sem var spurð hvort hún væri gift.

    Ég hef lesið eina og eina eftir afa höfundarins. Þær eru ekki slæmar. En þessa stundina les ég bara af spjaldtölvuskjá og þar eru bara úttlenskar glæpabækur og meðferðin á kvenfólkinu ekki skárri en í Svarfdælu.

  9. Harpa Hreinsdóttir on February 1, 2013 at 10:36 said:

    Ég hef lesið allar bækur Auðar og megnið af bókum afans. Bækur Auðar eru allar góðar en mér finnst Ósjálfrátt og Fólkið í kjallaranum einstakar. (Bækur afans eru margar góðar og ykkur að segja kemur hann eilítið við sögu í Ósjálfrátt …)

    Svo bregðast krosstré … eða þannig … svo þú hefur látið glepjast af tækninni, Lyftustjóri? Og láti maður tælast af svoleiðis er einsýnt að lestur bóka á íslensku verður æ minni og lesanda fleygir fram í útlensku (þökk sé skammsýni íslenskra bókaútgefenda).

  10. Þ. Lyftustjóri on February 1, 2013 at 17:31 said:

    Ja sko. Nú ligg ég í bælinu. Þar sem við fátt er að vera á daginn meðan frúin sinnir vinnu og öðrum skyldustörfum og á nóttunni sefur hún til að safna kröftum til vinnu og annarra skyldustarfa, svo sem að finna út hvar eru heppilegastir prísar á útsölum etc., neyðist ég til að lesa vegna þess að henni hugnast ekki að ég skeri út eða smíði báta milli rekkjóðanna. Nú hef ég þann djöful að draga að ég er afar fljótur að lesa og þarf svo sem tvo reyfara á sólarhring. Því tók ég því fagnandi þegar mágur minn, sem er afar tæknisinnaður, léði mér spjaldtölvunnar með ca. 600 bókum á. Vonast ég til að þær dugi þar til ég telst vinnufær aftur, vonandi svona um miðjan mánuðinn.
    En þar á eftir mun ég skila græjunni og taka upp lestur doðranta á pappír. Þú sérð að ég hef verið langt leiddur áður en tölvan kom því þrjár síðustu pappírsbækur voru Barokkmeistarinn hennar Margrétar, Moby Dick og Jón á Gautlöndum og sjálfstæðisbarátta Suður-Þingeyinga eftir Gunnar Karlsson.
    En vitaskuld munu skinn og fjöður ævinlega standa hjartanu næst. (hvernig svo sem skinn stendur?)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation