Smart markmið og leiðarstjörnur

Ég var að koma af löngum kennarafundi í öðrum landsfjórðungi. Fyrir hádegi hlýddum við á erindi þar sem m.a. var minnst á svokölluð SMART-markmið og eftir hádegi bárust ýmiss konar markmið og leiðir að þeim í tal á fagkennarafundi. Í vetur hef ég talsvert velt fyrir mér markmiðum, ekki sérstaklega markmiðum í kennslu heldur kannski frekar almennt. Þessi færsla fjallar um svoleiðis.

Í áramótaheitstrengingaumræðunni nýliðinni bárust SMART markmið oft í tal og þóttu æskilegust markmiða. SMART stendur fyrir: Skýr – Mælanleg – Alvöru – Raunhæf – Tímasett. Þetta er náttúrlega amrískt fyrirbæri, skv. Wikkunni sem allt veit var klisjan notuð fyrst 1981, og raunar stingur íslenska orðið Alvöru í stúf en sjálfsagt hefur mönnum ekki hugkvæmst skárra íslenskt orð sem byrjar á A (enska orðið er Attainable, þ.e. það sem er kleift að ná/uppfylla). Skv. SMART-fræðum er ekki vænlegt til árangurs að setja sér markmiðið „Ég ætla að léttast á árinu“ (svo ég vitni nú í þá tegund áramótaheita sem vinsælust er) heldur er æskilegra að markmiðið hljómi einhvern veginn svona:  „Ég ætla að léttast um 500 gr í janúar 2013 og 1 kíló í febrúar“ og svo eru settar fram leiðir til að ná þeim markmiðum, t.d. „Ég hætti að eta sælgæti nema á laugardögum og fer í salinn þrisvar í viku“ eða eitthvað svoleiðis.

Í HAM (hugrænni atferlismeðferð) er fólki einmitt kennt að setja sér SMART-markmið. Ég er hrifin af HAM-aðferðinni og fellst því fúslega á að SMART-markmið megi stundum nota. Þau eiga hins vegar alls ekki alltaf við og eru stundum til mikils trafala. Skýrasta dæmið um villigötur sem menn rata í reyni þeir að gera leiðarstjörnumarkmið (sjá neðar í færslunni) að SMART-markmiðum er svokölluð  „sporavinna“ AA félaga: Ég þekki engan sem hefur batnað hætis hót við að fylla út pappír og tala við sporasponsor daglega, raunar þekki ég ansi marga sem hafa kolfallið eftir svona „sporavinnu“, kannski af því þeir gættu ekki að því að sporin tólf eru aldrei fullstigin og verða ekki mæld í útfyllingum og símtölum.

Ég gæti alls ekki sett mér markmiðið „Ég ætla að verða 25% minna þunglynd í febrúarlok“, það sér hver maður! Ég gæti mér sett markmið eins og  „Ég ætla að fara út að labba í a.m.k. 30 mínútur að minnsta kosti fjórum sinnum í viku“ og mögulega myndi svoleiðis hreyfing gera mig minna þunglynda, mögulega skiptir hún engu máli (af reynslunni veit ég að hún skiptir engu máli til að koma í veg fyrir eða bæta svæsið þunglyndiskast en hún gerir dagana sem ég er minna veik heldur betri).

Nú hef ég ríslað mér við það í meir en ár að lesa yfir greinar og doktorsritgerð eftir eiginmanninn þar sem markmið og markmiðssetningu ber talsvert á góma. Í þeim er m.a. fjallað um markmið af því taginu sem minn ágæti eiginmaður kýs að kalla  „leiðarstjörnur“, þ.e.a.s. markmið sem stefnt er að en nást aldrei að fullu. 

Í dag barst í tal hverju við móðurmálarar viljum gjarna ná með lestri bókmennta. Það er kannski lýsandi fyrir fagið mitt að engum datt í hug að setja SMART-markmið um lesnar blaðsíður á mældum tíma! Nei, við vorum sammála um að tækist að gera nemendur mennskari, í merkingunni skilningsríkari og umburðarlyndari í garð annars fólks og sinn eigin, með lestri góðrar bókar væri þeim tíma afskaplega vel varið. Ég held að þetta sé bjartasta leiðarstjarnan sem við viljum að vísi okkur veginn í íslenskukennslu. En vitaskuld getum við aldrei höndlað hana og vegurinn til stjarnanna getur verið púl. Og það er svo sem ekki eins og við séum að finna upp kennslufræðihjólið, góðum kennara var í gömlu reyfurunum lýst þannig:  „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Ég strengdi engin áramótaheit fremur en venjulega. Þetta árið ætla ég að halda mig við sömu gömlu leiðarstjörnurnar og árin mörgu á undan, þ.e.a.s. að leitast við að ná betri stjórn á lífi mínu, að ná betri heilsu, að verða betri manneskja. Mér finnast svona spor á vegi sem leiðarstjörnur lýsa, lítil sem þau eru, mun gæfulegri en nýmóðins markaðsfræði-markmið þótt þau kunni að vera ósmartari.
 
 

3 Thoughts on “Smart markmið og leiðarstjörnur

  1. Þ. Lyftustjóri on January 28, 2013 at 20:03 said:

    Gott að sjá að þið hafið fengist við spjöll spakleg þarna handan fjallsins en er ekki næsta víst að Snorri hefur snúið sér í gröfinni þegar til hans barst yfir á astralplanið vitneskja um að þú kallar Heimskringlu reyfara?
    Libbðu annars heil

  2. Neinei, ég hugsa að hann Snorri hafi verið bæði dipló og upplýstur 😉 Þennan óvirðulega talsmáta um þjóðararfinn lærði ég af upplýsingatæknivæddum skólameistara norðan heiða fyrir margt löngu og sem reyfaraaðdáandi álít ég þetta hrós.

    Vonandi sleppurðu í göngugipsið ið fyrsta

  3. Guðrún Ægisdóttir on January 28, 2013 at 22:16 said:

    Má ekki skella aðgengileg þarna í staðinn fyrir alvöru?- Fínt hjá þér, Harpa:)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation