Vandinn að kenna rétt

Á vorönn komandi kenni ég einn áfanga, ÍSL 212. Ég hef verið með öllu óvinnufær síðastliðin þrjú ár og raunar er meir en áratugur síðan ég kenndi þennan áfanga síðast. Svo ég er aðeins byrjuð að glöggva mig á námsefni og kennsluháttum þessa áfanga undanfarnar annir, einnegin námskrá.

Undanfarið hefur mér orðið æ ljósara hve pólitísk rétthugsun er nú mikilvæg og hvernig röngtensjónum hinna rétthugsandi er beint að einstökum skólum, frá leikskólanum Hagaborg upp í einstaka framhaldsskóla. Rétthugsunarstígurinn er vandrataður, hættulegir fordómapyttir við hvert fótmál og vei þeim kennara sem verður uppvís að ranghugsun!  Sama gildir um nemendur.

Til öryggis hef ég skoðað Aðalnámskrá framhaldsskóla enn einn ganginn og ígrundað sex grunnþætti menntunar á þessu skólastigi í allan dag. Suma er auðvelt að flétta í kennslu ÍSL 212 en málin þykja mér vandast talsvert þegar ég fer að velta fyrir mér sjálfbærni, jafnrétti og mannréttindum í tengslum við námsefni og algenga kennsluhætti. Ég reikna með að halda fyrri venjum í þessu starfi þ.e. að líta á nemendur sem fólk og umgangast þá eins og fólk en ekki staðalmyndir síns kyns. En dugir svoleiðis afdalamennska til að afgreiða grunnþættina jafnrétti og mannréttindi? Þarf ekki að passa annars vegar að kennslan og námsefnið endurspegli jafnrétti og taki á mögulegu kynjamisrétti og hins vegar að gæta afar vel að mannréttindum (þ.e. helgu trúleysi) minnihlutahópa? Eftir dyggan lestur netmiðla þetta haustmisseri virðist mér að akkúrat þetta séu mál málanna.

Í ÍSL 212 eru aðalviðfangsefnin málsaga og Snorra-Edda Snúum okkur fyrst að málsögunni:

Úlfur litliÍ fljótu bragði sýnist mér auðsýnt að ég verð að hætta að nota Faðirvorið í samanburðardæmum á gotnesku, fornensku, Norn, latínu og íslensku. Hef umhugsunarlaust flaggað þessum útlendu textum og treyst á að nemendur kynnu íslensku útgáfuna en sé auðvitað núna að þarna gæti ég talist vera með hroðalegt og ísmeygilegt trúboð. Svo það verður að skipta um texta … verstur fjandinn að það er ekkert bitastætt til á gotnesku nema Nýjatestamentsþýðing Úlfs litla! Ég sé ekki alveg hvernig ég get kennt málsögu án þess að minnast á gotnesku en ég hlýt að finna út úr því, ekki vill kennari láta hanka sig á kristniboði.

Það er óskaplega erfitt að draga taum kvenna í málsögu, meira að segja nógu erfitt að passa að fjalla jafnt um bæði kyn (má samt auðvitað telja orð eftir málfræðilegu kyni – en hvað gerir maður þá við hvorugkyns orð?). Flest klassísk gömul dæmi um málfar eru annað hvort höfundarlaus eða eignuð nafngreindum körlum. Því miður. Mér dettur helst í hug að styðjast við táknfræðilegan kynjafræðilegan fróðleik og kappkosta að gera hlut u-hljóðvarps sem mestan, um leið og ég geri lítið úr i-hljóðvarpi. O er kvenlægt tákn, I karllægt. Því miður er o verulega ómerkilegt hljóð í sögu málbreytinga frá frumnorrænum tíma til okkar daga. U hefur þann kost að með góðum vilja má sjá líkindi með U og æxlunarfærum kvenna (eggjastokkum, eggjaleiðurum og …). V væri auðvitað heppilegra en þótt menn hafi stafsett V fyrir U í nokkrar aldir myndi svoleiðis fróðleikur líklega rugla nemendur. Svo ég mun kappkosta að gæta algers jafnréttis í umfjöllun um u- og i-hljóðvarp, helst draga taum usins. Og líklega er best að sleppa klofningu út af því hve orðið líkist mikið dónalegu orði, ekki vill maður styðja klámvæðinguna sem alls staðar blasir við unglingum á framhaldsskólaaldri.
 
 

Það er spurning hvort megi yfirleitt kenna óhörðnuðum unglingum bók á borð við Snorra-Eddu því þetta er hræðileg bók, séð undir (þröngu) jafnréttis- og mannréttindasjónarhorni! Í formálanum heldur höfundur, Snorri Sturluson, því blákalt fram að almáttugur guð hafi skapað himin og jörð og gerir síðan lítið úr raunvísindamönnum: Segir hæðnislega að þeim sem beita vísindalegum aðferðum sé „ekki gefin andleg spektin“ og að alla hluti skilji þeir „jarðlegri skilningu“ (af samhenginu er auðséð að Snorra finnst það ansi takmörkuð skilning). Líklega er best að halda Prologus frá krakkaskinnunum.

Óðinn og GunnlöðEkki tekur betra við þegar megintextinn er lesinn: Þar er goðum hossað ótæpilega en rétt svo minnst á örfáar gyðjur; Þar er haldið fram tómum hindurvitnum og firru, t.d. um sköpun heims og endalok heims (og raunar er hið síðarnefnda óþægilega líkt lýsingu Opinberunarbókar Jóhannesar og mætti líta á sem viðurstyggilega lúmska leið til að smygla kristnum hugmyndum inn í barnssálir); Kennt er að jörðin sé flöt, að teymi þriggja guða hafi skapað mannkynið úr sjóreknum trjádrumbum (sem gengur augljóslega þvert á þá góðu þróunarkenningu) og annað er í sama dúr. Sumar sögurnar eru í meira lagi vafasamar, t.d. sagan af skáldamiðinum sem mætti segja að fjallaði um vændi og til að taka steininn úr er það karlmaður sem selur blíðu sína fyrir bjórsopa! Hvaða skilaboð sendir svoleiðis saga? Er verið að hampa aldagamalli klámvæðingu karla? Svo ekki sé minnst á hve bjórdrykkja er sýnd í jákvæðu ljósi í þessari sögu sem samrýmist alls ekki forvarnarstefnu skólans. Ekki er sagan af Gefjuni og Gylfa skárri (vændi enn og aftur) … eða sagan af Grótta sem fjallar athugasemdalaust um mansal … eða sagan sem segir frá athæfi Gjálpar … 

Ég sé fram á að þurfa að ritskoða Snorra-Eddupartinn ofan í svona tuttugu blaðsíður eða svo. Verð þó ekki óhult því áfram má rökstyðja að ég stundi (heiðið) trúboð sem er eitt það versta sem nemendur upplifa, frá leikskóla og uppúr.

Úr mínu menntaskólanámi veit ég vel hvernig gera má kennslu/nám í þessum áfanga sjálfbæra. Í menntaskólanum sem ég var í, í eldgamla daga, var haldin hátíðleg málsögubrenna samdægurs að loknu stúdentsprófi í málsögu. En á þeirri fornöld var kennt ómerkilegt fjölrit – er forsvaranlegt að hvetja nemendur til að brenna útgefnar bækur sem þeir geta selt notaðar?

Það er greinlega mun vandasamara að skipuleggja kennslu nú en fyrir þremur árum og góð ráð eru vel þegin.

Efri myndin er af Úlfi litla biskup og hin neðri af Gunnlöðu Suttungsdóttur að sörvera Óðin.
 
 

11 Thoughts on “Vandinn að kenna rétt

  1. Hjalti Rúnar Ómarsso on December 11, 2012 at 18:25 said:

    Þessi skrumskæling á andstöðu við trúboði í skólum er alveg óheyrilega fyndin, en ég vildi bara benda á að það er einfaldlega rangt að Wulfilan sé það eina sem við höfum á gotnesku, það er líka til stór hluti af ritskýringarriti við Jóhannesarguðspjall, en samkvæmt gríninu þínu þá ætti ég auðvitað líka að vera á móti því að það væri minnst á það.

  2. Æi ég var nú ekki að skrifa þessa færslu fyrir Vantrú, þá hefði ég passað að gera grein fyrir hverju andskotans smáatriði og sökkva mér ofan í sparðatíning. Bæti við orðinu bitastætt í texta færslunnar ef mætti verða vantrúarfélögum til hugarhægðar.

    Það er ekki til stór hluti af ritskýringarriti við Jóhannesarguðspjall. Í þeim átta blöðum sem kallast E hlutinn af Codices Ambrosiani eru slitur af þessu ritskýringarriti (kallað Skeireins aíwaggēljons þaírh Iōhannēn af síðari tíma mönnum). Þær slitrur hafa verið eignaðar Úlfi litla en eins og gildir um Silfurbiblíuna (Codex Argenteus) er sosum engin vissa fyrir því að Wulfila hafi skrifað/ látið skrifa akkúrat þessi handrit.

    Ég sá ekki ástæðu til að telja upp í færslunni hvert handritsbrot/slitur af handriti þar sem finna má texta á gotnesku. Þeir textar eru allir biblíuefni nema bréfið hins flæmska Ogier Ghiselin de Busbecq (skrifað 1562): Í bréfinu listar de Busbecq upp u.þ.b. 100 orð úr Krím-gotnesku en menn hafa vissar efasemdir um að þau séu rétt (ég rek ekki hér af hverju þær efasemdir stafa).

    Veit ekki hvort það er þér til nokkurrar huggunar, Hjalti Rúnar Ómarsson, að vita að ég lauk einum kúrsi í gotnesku í eldgamla daga og hefur verið hlýtt til Úlfs litla síðan þá 😉

  3. Helgi Ingólfsson on December 12, 2012 at 08:35 said:

    Góður pistill, Harpa.

    Stundum finnst mér kennarastarfið hafa þróast í einkennilega átt á undangengnum tveimur áratugum: Það virðist ekki snúast lengur um það að kenna, heldur að gæta þess að troða engum um tær. (Og jafnan er það tilkomið vegna hagsmuna sárafárra einstaklinga, ekki heildarinnar.)

    Öruggasta leiðin er að sjálfsögðu að halda sig eingöngu við þær staðreyndir, sem koma fram í kennslubókinni, og ekki agnarögn umfram – þá er alltaf hægt að bera bókina fyrir sig sem skjöld og svara við öll tækifæri: “Þetta stendur þannig í kennslubókinni.”

    Enn fremur sýnist mér öruggast fyrir kennara að setja ekki kennsluefni sitt á netið. Og alls ekki glærur, eins og þróunin er að verða í æ kröfuharðara samfélagi.

  4. Hm … í alvörunni held ég að það verði ekkert mál að kenna ÍSL 212 og hef ekki áhyggjur af hinum rétthugsandi … óvísindaleg athugun fyrir um ári síðan leiddi í ljós að hópur gargenda á netinu er fámennur (en hins vegar fjarskalega áberandi) – líklega innan við hundrað manns. Ég hlakka mjög til að hefja störf við kennslu á ný 🙂

    Og ég held áfram að setja mitt kennsluefni á netið búi ég til eitthvert bitastætt efni. En ég skil sosum vel að kennarar forðist slíkt, það er hægt að blása eina glæru upp úr öllu valdi í netstormsveip, sérstaklega ef þeir sem froðufella vita sáralítil skil á efninu.

  5. Helgi Ingólfsson on December 12, 2012 at 11:04 said:

    Harpa, ég kannast ágætlega við sumt af því sem þú nefnir hér að ofan. Núorðið er vandasamt að kenna erlenda listasögu fyrri alda (sem ég geri) vegna skorts á tilvísunarramma nemenda til að fella efnið í. Hvernig er hægt að kenna Dürer og El Greco án þess að þekkja til Opinberunarbókarinnar? Eða Rafael og Caravaggio án þess að þekkja til Postulasögunnar? Hvað þá að úskýra alla þessa kaþólsku dýrlinga í myndum Bellini og Tizians? Fyrir 20 árum fannst mér lítið mál að útskýra þetta efni – í dag fæ ég á tilfinninguna að einhver kynni að líta mig hornauga og álíta mig stunda kristniboð fyrir að útskýra það sem að baki myndsköpuninni bjó.

  6. Ásdís on December 12, 2012 at 11:31 said:

    Það er frábært að lesa bloggið þitt Harpa.
    P.S. þú varst alltaf uppáhalds Íslenskukennarinn minn

  7. Þ Lyftustjóri on December 12, 2012 at 20:28 said:

    Gaman að heyra að þú ætlar að skeiða upp að töflu aftur. Ef illa fer og þú treður einhverjum um tær, má þá ekki kenna ríkisstjórninni um?

  8. Jú, minn kæri Lyftustjóri, ég hef ekki gleymt því að hér varð hrun … (og á það má skella allri skuld).

  9. Jóhann on December 13, 2012 at 00:03 said:

    Hvað sagði ekki sá, hvers nafn má ekki lengur nefna: „…tak kross þinn og gakk”, sem gerðist væntanlega áður en hann var sjálfur krossfestur.

    Hérna er gamalkunnur bragur frá afkomendum þræla í Bandaríkjunum, sem hefur orðið m.a. að titli í einhverjum magnaðasta ópus á pari við Sjálfstætt fólk, frá Ken Kesey:

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    Sometimes I live in the country
    Sometimes I live in town
    Sometimes I have a great notion
    To jump into the river and drown

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    Quit ramblin’ and quit gamblin’
    Quit stayin’ out late at night
    Stay home with your wife and family
    Sit down by the fireside bright

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    I asked your mother for you
    She told me you was too young
    I wished to God I’d never seen your face
    I’s sorry you ever was born

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    I love Irene, God knows I do
    I’ll love her till the seas run dry
    And if Irene turns her back on me
    I’d take morphine and die

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    You cause me to weep, you cause me to mourn
    You cause me to leave my home
    But the very last words I heard her say
    Was “Please sing me one more song”

    Irene goodnight, Irene goodnight
    Goodnight Irene, goodnight Irene
    I’ll see you in my dreams

    🙂

  10. Kann lagið og textann í viðlaginu – fínt að fá textann allan.

  11. Helgi Ingólfsson on December 13, 2012 at 12:27 said:

    Jóhann (aths. 9):

    Ertu viss um að hann hafi ekki sagt: “Tak sæng þína og gakk”? (Ég held að þeir hafi verið að koma úr RL-búðinni.) 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation