Dagurinn, femínistinn og bækurnar

Jósef�na öskrarÉg vaknaði við að femínisti heimilsins stóð á öskrunum við rúmstokkinn. Sennilega hefur hún staðið lengi á öskrunum því hún er femínín femínisti og heyrist lágt í henni … samt sætir hún þöggun og jafnvel út-skúfun (fer ekki nánar út í það á opinberu bloggi). Þegar ég loksins hafði mig framúr og bjóst til að bursta tennur blasti ástæðan fyrir felmtri femínistans við: Hinn einbeitti innbrotsköttur Kuskur hreiðraði um sig í baðherbergisvaskinum, sæll og glaður og síbrotalegur á svip. Ég henti honum út og róaði femínistann.

Eftir að hafa stungið út úr nokkrum kaffibollum og lesið moggann (mannsins) var kominn tími á bloggrúntinn. Blessunarlega höfðu mínir uppáhaldsbloggarar skrifað sitt lítið af hvurju, þær Vilborg og Gurrí og Eva. Ég hafði raunar lesið færslu Evu kvöldið áður og skemmt mér ágætlega við að horfa á prinsessuvídjóið, skemmti mér við að horfa á það aftur í morgun; og ég las líka færslu Gurríar í gærkvöld en það mátti alveg lesa hana aftur enda er ég eins og venjulega sammála Gurrí (deili reynsluheimi með henni) og bæti hér með við að það að hluti Flatus-lifir-veggjarins hafi fokið hefur einnegin verið þaggað niður.

Svo var að kynna sér hvernig pólitískt réttir vindar blésu í dag. Aðalhitamálið virtist vera barnabækur, bleikar og bláar, alveg eins og í gær, og virðist stutt þar til blásið verður til bókabrenna (eins og systursamtök femínísta iðkuðu í henni Amríku á níunda áratugnum).

Ég valdi “sumur [er sæll] af verkum vel” úr sæluboðorðum Hávamála fyrir daginn í dag (þetta eru ágæt geðorð, ekki verri en hver önnur) og bjó manni mínum fagurt heimili = sinnti helgarþrifum. Á meðan reikaði hugurinn þægilega til barnæsku minnar og þeirra bóka sem ég las. Valið var einfalt: Ég las lestrarfélagsbækurnar. Bækurnar komust fyrir í einu herbergi og ég hafði aðgang að lyklinum.  Á norðurhjara landsins var ekki búið að finna upp uppeldi skv. kenningum þegar ég var krakki –  bæði er langt síðan og sveitin afskekkt. Þess vegna las ég Nonnabækurnar og Percy hinn ósigrandi, Kapítólu og Karlsen stýrimann, rauðu telpnabækurnar og bláu drengjabækurnar, Tópelíuz og Tamin til kosta, Fornaldarsögur Norðurlanda og Freuchen o.s.fr. Ég man að mér var bannað að lesa Gleðisögur Balzacs og þess vegna las ég þá bók einkar vandlega … þótti hún mjög leiðinleg.  Sömuleiðis var mömmu eitthvað illa við að ég læsi Tígulgosann … þess vegna las ég Tígulgosann innan í Æskunni en því miður komst það upp. Það komst líka upp að ég faldi bækur undir rúmi þegar gerð var tilraun til að skammta mér bækur á viku vegna þess að í gildi var sú norðlenska uppeldisaðferð að börn ættu að vera úti og ekki liggja alltaf í bókum því þá yrðu þau eins og hundaskítur í framan. (Ég hef mömmu grunaða um að hafa viljað losna við krakkana smástund á hverjum degi og upplagt að láta mig passa því ég var elst fremur en hún hafi raunverulega trúað þessari hundaskítshúðlitarkenningu … árangurinn var sá að ég fékk algera andúð á útivist og krökkum og var sérlega vond við yngri systkini mín. Og faldi bækur.)

Velti því svo fyrir mér hvort synir mínir hefðu beðið skaða af því að fyrir þá var lesinn allskonar pólitískt rangur barnalitteratúr, s.s. Litli svarti Sambó og Tíu litlir negrastrákar og Tinni og Enid Blyton komplett … ég man ekki einu sinni eftir öllum óhroðanum til að telja upp. Held þeir hafi sloppið fyrir horn sálarlega séð. Og það eina pólitískt rétta í þeirra uppeldi sem ég man eftir var þegar leikskóli eldri stráksins skar upp herör gegn vopnakyns leikföngum. Einn daginn sagði krakkinn hróðugur þegar pabbi hans sótti hann á leikskólann: “Við erum búnir að skjóta allar stelpurnar í dag!” Þá höfðu þeir notað sleifar til verksins, blessaðir drengirnir í bófahasarnum … Það rættist eigi að síður úr syninum og hann heldur sig örugglega réttu megin við lögin í dag, fullorðinn.

Við erum hugmyndafræðileg gauð hér á þessu heimili, fyrir utan femínista heimilisins en mynd af henni skreytir þessa færslu. Auk femínisma leggur hún stund á mannfræði og kveðskap, s.s. sést á þessari gömlu vísu:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum;
malandi læt rímið renna;
og raula fyrir málstað kvenna.

3 Thoughts on “Dagurinn, femínistinn og bækurnar

  1. Jóhann on November 9, 2012 at 22:57 said:

    er þetta afhending?

  2. Neibb, braghenda er það.

  3. Jóhann on November 10, 2012 at 01:07 said:

    næsti bær við
    🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation