Að lesa um sjálfa sig

Ég er næstum búin að lesa Pillret, sænska bók sem ég hef áður minnst á og fjallar um sjúkdómsgreiningar þunglyndis- og kvíða og lyfjameðferð í sögulegu ljósi (og raunar margt margt fleira). Höfundurinn Ingrid Carlberg hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir þessa bók.

Söguleg og fræðileg umfjöllun er brotin upp af lífreynslusögum og í gærkvöldi las ég söguna Annika och tröttheten. Mér brá nokkuð við þennan lestur því þótt aðstæður Anniku hafi verið ólíkar mínum var upphaf veikinda og meðferðin sem henni var veitt kannski ekkert svo ólíkt. Saga Anniku endaði vel en mér finnst lítið hafa ræst úr minni, vonast þó til þess að ná bata með tíð og tíma.

Þetta byrjaði allt með því að Annika var örmagna af svefnleysi. Hún var einstæð móðir tveggja barna og yngra barnið með viðvarandi magakrampa vegna mjólkuróþols og óþols fyrir fleiri fæðutegundum. Þegar hún loksins leitaði á náðir heilsugæslunnar í febrúarbyrjun, eftir að hafa ekki fengið nægan svefn í meir en hálft ár, fékk hún viðtal við læknanema sem taldi hana mögulega geta verið þunglynda: Þunglyndi lýsti sér ekkert endilega í að vera niðurdregin heldur gæti komið út sem svefnleysi og að grennast, sagði læknaneminn. Annika svaf lítið og hafði grennst töluvert. Hún fékk í kjölfarið viðtal við geðlækni sem ávísaði þunglyndislyfi. Þunglyndislyfið kveikti mikinn almennan kvíða og ofsakvíðaköst. Svo Annika fékk róandi lyf við kvíðanum. En henni leið bölvanlega og hvað eftir annað leitaði hún á náðir heilsugæslu og bráðamóttöku geðsviðs á næstu vikum og mánuðum. Annika tók eftir því að nú var lítið hlustað á það sem hún hafði að segja, allt var skrifað á geðheilsu hennar, meira að segja verkir í kinnholum.

Annika byrjaði að trappa niður þunglyndislyfið í samráði við heilsugæslulækni. Þá snarversnaði henni og hún var lögð inn á geðdeild, fært í sjúkraskrá að hún þyrfti líkast til sterkari geðlyf til að ráða bót á slæmu þunglyndi. Þáverandi þunglyndislyf var trappað út og Annika sett á nýtt lyf, við útskrift var skammturinn tvöfaldaður og Annika fékk áfram róandi lyf og nú svefnlyf að auki. Hún fékk líka sjúkdómsgreiningu við útskrift: F 322 Djúp geðlægð án sturlunareinkenna.

Viku síðar margfaldaðist kvíðinn. Annika reyndi næstu mánuði að benda á að sér versnaði bara af nýja lyfinu: “I februari, när jag första gången fick medicinen, uppfyllde jag inte ett enda symtom för depression. Nu kunde jag kryssa i nåstan alla rutorna i diagnosskalorna.” Og sjálfsvígshuganir urðu æ áleitnari. Á tímabili var hún í daglegu sambandi við yfirlækni geðdeildarinnar.

Snemma í júlí leitaði Annika enn einn ganginn á bráðamóttöku og talaði við óbreyttan lækni. Sá listaði upp lyfin sem hún var nú á, allar tólf sortirnar: Meirhlutinn var geðlyf en þremur tegundir af verkjalyfjum hafði einnig verið ávísað vegna lið-og vöðvaverkja. Yfirmaður hins óbreytta bókaði í sjúkraskrá að líðan Anniku stafaði af  aukaverkunum af lyfjum og ákveðið var að trappa lyfin ansi hratt niður.

Laust eftir miðjan júlí var Annika hætt á þunglyndislyfjunum. En svona hraðri niðurtröppun fylgdi skelfilegt fráhvarf, t.d. martraðir, kvíði, óþægindi í öllum skrokknum og tilfinning eins og rafstuð í höfði. Annika fór að velta fyrir sér hvort hún væri með heilaæxli og henni fannst að legið væri að detta úr sér. Svo hún leitaði til læknis.

Í sjúkraskrá var bókað að Annika væri illa haldin af þunglyndi og hefði ranghugmyndir sem minntu á geðrof, því til sönnunar bókuð absúrd hugmyndin um legið. Og Annika var aftur lögð inn á geðdeild.

Skv. sjúkraskrá bað hún sjálf um “nýtt kraftaverkalyf”. Yfirlæknirinn sem hafði sinnt henni síðast taldi Anniku nú hafa persónuleikaröskun auk svæsins þunglyndis. Hann velti fyrir sér að setja hana á enn sterkari lyf en ákvað á síðustu stundu að reyna fremur raflækningar.

Raflækningarnar reyndust hafa mjög góð áhrif og “hin gamla Annika” leit aftur dagsins ljós. Hún náði aftur tökum á eigin lífi.

Í viðtölum við Ingrid Carlberg kemur fram að Annika leitaði aftur til læknanna eftir að henni batnaði í leit að skýringum eða afsökunarbeiðni. Yfirlæknirinn á geðdeildinni sagði henni þá að sín skoðun hefði verið að fjórfalda ætti lyfjaskammtinn, að vandinn hefði falist í því að hún tók of lítið af lyfjum. Að auki talaði hann um vandræði fólks sem gerði of miklar kröfur til sjálfs síns (en hann hafði bókað svolítið um hve krefjandi starfi Annika sinnti og að hún gerði of miklar kröfur til sín í starfi).

Annika snéri aftur til starfa, í sitt “intellektuellt krävande arbet” og hefur þrifist ágætlega í því starfi í mörg ár. Sjálf heldur hún að ef hún hefði fengið fjögurra nótta óslitinn svefn í nóvember og desember hefði hún aldrei orðið svona veik og ekki leitað til heilsugæslu í febrúar … og hún hefði þá ekki tapað hálfu ári úr lífi sínu, segir hún.

Þremur árum eftir hina erfiðu reynslu Anniku af læknisaðferðum geðlækna fékk hún greiddar skaðabætur úr sjúklingatryggingu ríkisins “för det förlängda bristerna i sjukvårdens behandling och uppföljning inneburit för henne.”

3 Thoughts on “Að lesa um sjálfa sig

  1. Herdís on October 25, 2012 at 21:13 said:

    Úff enn eitt sláandi dæmið en því miður (svona fyrir þá sem ekki vita) þá eru læknisaðferðir geðlækna oft ekki manneskjulegri eða á hærra plani en þetta.

  2. Elínborg on February 8, 2013 at 11:01 said:

    Sæl – datt niður á bloggið þitt og finnst það afar áhugvert. Langar að þakka þér fyrir skemmtileg og flott skrif.

    En veistu hvort þessi bók hafi komið út á íslensku?

    Bestu kveðjur
    Elínborg

  3. Harpa Hreinsdóttir on February 8, 2013 at 11:40 said:

    Nei, því miður hefur þessi bók ekki verið þýdd.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation