Haldið framhjá Kindlinum

Nú hefur Kindillinn minn legið meira og minna á hillu undanfarnar margar vikur. Sem er auðvitað sorglegt miðað við hve mikla ást ég hef fest á gripnum.

Ég datt sumsé í pappírsbækur. Fallið byrjaði með tveimur hnausþykkum bókum eftir Jussi Adler-Olsen, uppáhaldið mitt. Ég tók að mér að vera “pössunarpía” fyrir vinkonu mína, þ.e. leysa hana af í kennslu nokkra daga, einhvern tíma snemma í september. (Þetta var nú ekki kennsla þannig lagað, ég fékk allt upp í hendurnar og þurfti ekki fara yfir neitt, bara mæta í tímana, merkja við og passa að nemendur ynnu.) Kennari þar varð áskynja aðdáunar minnar á Adler-Olsen og lánaði mér Flaskepost fra P og Journal 64, sem ég gleypti í mig.

Skömmu síðar bárust pappírseintökin sem ég neyddist til að panta frá Amazyni af því önnur bókanna var bara til á pappír, rafbókaútgáfan af hinni bara til sölu í Amríku. Þetta voru bækur sem snertu geðlækningar, The Myth of the Chemical Cure og Unhinged; Las þá síðarnefnu spjaldanna á milli en hina svona í pörtum.

Stuttu síðar var mér bent á enn eina ágætis bókina um svipað efni sem til væri á bókasafni Norræna hússins. Það er bókin Pillret. En berättelse om depressioner och doktorer, forskare och Freud, människor och marknader eftir blaðamanninn Ingrid Carlsberg (útg. 2008). Innan á bókakápu er ýmislegt hrós, þ.á.m. staðhæfir lyfjafræðiprófessor að bókin sé “En formidabel thriller!” Nú er ég hálfnuð með bókina (hún er ansi löng) og verð að taka undir þessi orð: Þessi bók um þunglyndi, lyf og geðlækningar er nefnilega æsispennandi, gefur góðri morðsögu lítið eftir. Sá sem benti mér á hana skrifaði sjálfur bloggfærslu um hana á sínum tíma og ég vísa bara í bloggfærsluna hans vilji menn kynna sér bókina (sem ég verð vel að merkja með í láni í tvær vikur í viðbót). Sjá Bókarýni: Frábær bók um geðlyf! eftir Einar Karl Friðriksson. Það tefur svo lesturinn nokkuð að ég er alltaf að kíkja í tilvísana- og heimildaskrárnar …

Ég uppgötvaði að mig bráðvantaði bókina Alverdens strikning eftir Ann Möller-Nielsen (útg. 1988). Hafði upp á eintaki til sölu með hjálp Gúguls frænda og hugmyndaauðgi bóksalans (sem ekki var með kreditkortaþjónustu) varð til þess að við ákváðum að skiptast á gjöfum, ég og hann. Svo fékk ég bókina að gjöf og þurfti að lesa hana upp til agna samstundis … vitaskuld á pappír. Þessi bók á eftir að nýtast mér afar vel í prjónasögublogg, sem ég tek aftur til við þegar ég hef bloggað eina færslu enn til að klára yfirferð yfir þunglyndislyfjapakkann.

Nú, í ofanálag hef ég dottið inn á ýmis bókasöfn undanfarið, er með heilan haug af hannyrðafræðum af bókasafninu í Kennó og nokkrar af bókasafninu hér á Skaga, hef stillt mig um að fá lánað á Þjóðarbókhlöðu þótt ég hafi rekið þar inn nefið vikulega og gramsað í ýmsu. M.a. er hér í hillu hálflesin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur, sem er mjög skemmtileg og vel skrifuð og ég ætla örugglega að klára. Ég fékk líka lánaða bókina hans Óttar Guðmundssonar, sem ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt eftir, Hetjur og hugarvíl. Las kaflann um Njálu en þótti ekki mikið til koma og ákvað að skila bókinni með restinni ólesinni. Nú er ég nefnilega hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. (Af sömu ástæðu lagði ég Fifty Shades of Gray á Kindilhilluna eftir 40 lesin prósent, sú bók sameinaði það að vera einstaklega illa skrifuð og margauglýst erótíkin svo ómerkileg að ég roðnaði næstum yfir að lesa þessa hörmung.)

Í Kindlinum er hálflesin Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Nordahl. Ég mun örugglega klára hana því þetta er helvíti góð bók! Hins vegar held ég að ég hendi hinni hálflesnu bókinni, sögunni um hvernig Liza Marklund og Mia Eriksson hagræddu sannleikanum ansi mikið í bókunum sem þær skrifuðu og slógu í gegn. Vissulega er áhugavert hvernig hægt er að teygja og toga hlutina og ljúga duglega í þokkabót og selja svo metsölu … en bókin er alltof langdregin og ég nenni ekki einu sinni að gá hvað hún heitir. Líklega eru hundraðogeitthvað bækur í Kindlinum svo það er ekki eins og ég sé að ljúka lestri í bili … en hann liggur sem sagt í hillunni. Og enn á ég eftir að calibra bók sem mér áskotnaðist fyrir stuttu, um geðveiki og vestrænar læknisaðferðir við henni …

Það tefur mig líka frá lestri að vera þokkalega hress. Það er ótal margt sem mig langar til að gera á hverjum degi og um að gera að láta það eftir sér meðan heilsan er með skásta móti. Svo reyni ég líka að vinna í því að halda heilsunni áfram með skásta móti, t.d. er nauðsynlegt að arka 6-8 kílómetra á hverjum degi (veit ekki hvort það virkar eitthvað gegn þunglyndi en það skaðar a.m.k. ekki); segi já við öllum samkomum og uppákomum (á HAM-námskeiðinu greip ég ráðlegginguna að það væri slæmt fyrir þunglynda að vera í félagsskítafélaginu … fín ráðlegging og við skulum vona að hún virki): Satt best að segja held ég að ég sé búin að gera meira undanfarna tvo mánuði en samanlagt tvö árin á undan.

Þetta er bloggað beint af augum … og ég nenni ekki að blogga um dægurmál frekar en venjulega enda er offramboð á svoleiðis bloggum, mjög misjöfnum að gæðum. 

7 Thoughts on “Haldið framhjá Kindlinum

  1. guðrún jónsdóttir on October 14, 2012 at 19:36 said:

    jibbíkóla

  2. Ég fékk mér kyndil og nota hann til jafns við pappírsbækur. Eitt er snilld við hann, ég get sent honum heilu messurnar með prédikunum og öllu … mjög þæginlegt og handægt þegar flytja þarf efni úr ræðupúlti eða stól.

  3. Aha … ég hafði ekki áttað mig á notagildi Kindilsins fyrir messur 🙂

  4. Nei, en þú gætir sent þangað fyrirlestur …

  5. Guðrún Ægisdóttir on October 17, 2012 at 21:34 said:

    Fékk kindil í gær og hlóð hann. Nú vill hann ekki viðurkenna password nettengingarinnar, svo ég geri ekki meira með hann í bili. Skítt.

  6. Æi, Guðrún, en fúlt! Þú verður að skrifa Amazyni sjálfum og fá nýtt password. Vel að merkja geturðu hlaðið niður bókum í tölvuna þína og svo flutt þær yfir á Kindilinn en það er auðvitað umhendis.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation