Fáránleg verðlagning íslenskra rafbóka og einokunarstefna bókaútgefenda

Svk. upplýsingum sem ég fékk frá bókaútgefanda er kostnaður nokkurn veginn svona samansettur í verði íslensks skáldverks á pappír í bókabúð:

  • Prentkostnaður: 15-20% af verðinu (miðað við að bókin sé prentuð í íslenskri prentsmiðju);
  • Dreifingarkostnaður: 5-7% af verðinu;
  • Greiðslur til endursöluaðila (bókabúða): 35% af verðinu;
  • Greiðsla til höfundar: 23% af verðinu
  • Auglýsingakostnaður: 10-20% af verðinu.

Restin kemur í hlut bókaútgefandans og á m.a. að dekka kostnað við vinnuna við að búa verkið til prentunar. (Líklega er virðisaukaskatturinn innifalinn í hlut endursöluaðila.)

Það er algerlega augljóst að bara með því að losna við prentkostnað og greiðslur til endursöluaðila ætti verð á bók að lækka töluvert. Af hverju kosta þá íslenskar rafbækur hið sama og sömu bækur á pappír í bókabúð?

Sá bókaútgefandi sem ég ræddi við taldi mikið mál að útbúa rafbók og dreifa. Líklega getur það verið snúið ef bókin er komin á eitthvert það stafrænt form sem prentsmiðjur taka við. En sé um að ræða einfalda textaskrá eða Word-skjal, sem hægt er að breyta í HTML-skrá og hreinsa út óþarfa kóða, ætti þetta ekki að vera mikið mál. Óli Gneisti Sóleyjarson, sem minnst var á í síðustu færslu og er smiður Rafbókavefjarins, skrifaði meistararitgerð um þetta verkefni sitt þar sem hann lýsir því m.a. hvernig megi breyta skjölum í rafbók með Sigil, ókeypis forriti, o.fl. forritum (s. 47-50). Ég hvet alla áhugamenn um rafbækur til að lesa ritgerðina hans, Rafbókavefurinn Íslenskar rafbækur í opnum aðgangi. Þar fjallar hann m.a. um sögu rafbóka, ýmislegt sem snertir höfundarétt, rekur sögu Netútgáfunnar ítarlega og lýsir smíði og rekstri Rafbókavefjarins. Þetta er mjög áhugaverð, vel skrifuð og upplýsandi ritgerð. Á Rafbókavefnum sjálfum eru svo góðar leiðbeiningar um hvernig nota megi Sigil og Calibre til rafbókagerðar.

Ég ætla ekki að skrifa langt mál um kostnað af vistun og dreifingu gagna á tölvutæku formi heldur einungis benda á að til eru ódýrir vistunarkostir (t.d. Bluehost sem afritar öll gögn einu sinni á sólarhring), ódýr lén, ef menn nota aðra kosti er ISNIC, ódýr vefgerðarforrit, t.d. Weebly, þar sem hægt er að setja upp verslunarsíðu og tengja við PayPal o.s.fr.  Það er engin ástæða til að reka eigin skráaþjón þegar hægt er að kaupa rými fyrir gögnin og sjálfkrafa tíða afritun á netskýi. Kostnaður við auglýsingar á Facebook og á netmiðlum ætti að vera minni en við auglýsingar á pappír, fyrir svo utan það að gott lén og vandlega unnin lýsigögn fyrir leitarvélar ættu að skila sér vel á jafnlitlu markaðssvæði og Ísland er. Ég sé ekki betur en hver bókaútgefandi ætti að geta stofnað sína eigin rafbókasölusíðu með litlum tilkostnaði og lágmarkstæknikunnáttu.

GrægðiEf við reiknum með að upplýsingarnar sem ég fékk frá bókaútgefandanum séu réttar þá má ætla að af íslensku skáldverki sem kostar 3.000 krónur í Eymundsson fái höfundurinn svona 610 krónur og útgefandinn kannski 300-350 kr. Af hverju er ekki hægt að selja íslenskar rafbækur á verðinu 1.300-1.500 krónur og bæði höfundur og útgefandi héldu samt sínum hlut miðað við prentuð eintök? Í hverju felst hinn gífurlegi kostnaður sem verður til þess að rafbækur kosta á bilinu um 2.000-4.000 krónur og hærra verðið er miklu algengara?

Á vef Félags íslenskra bókaútgefenda má finna samningseyðublað sem bókaútgefendur og höfundar fylla út. Þar segir um rafbækur:

d. Rafræn útgáfa.
Sé ekki um annað samið hefur útgefandi verksins rétt til útgáfu þess á rafrænu formi. Hafi útgefandi ekki nýtt sér þann rétt innan 18 mánaða frá útgáfudegi prentaðrar bókar fellur rétturinn til höfundarins að nýju. Að liðnu þessu tímabili á útgefandi rétt á að höfundur tilkynni honum skriflega um fyrirhugaða rafræna útgáfu og skal hann eiga forgang til útgáfunnar enda takist samkomulag með útgefanda og höfundi um skilmála útgáfunnar innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningarinnar. Að öðrum kosti er höfundi frjálst að ráðstafa réttindum þessum án frekara samráðs við útgefanda.
Aðilar skulu semja um skiptingu tekna af rafrænni útgáfu og skal í upphafi miðað við að tekjur af rafrænni útgáfu skiptist jafnt milli útgefanda og höfundar. Tekjur samkvæmt grein þessari skulu að öðru leyti reiknaðar með hliðsjón af ákvæðum 12., 13., 15. og 16. gr. samnings þessa, þ.e. sem söluverð að frádregnum virðisaukaskatti, sölulaunum og afslætti. Við ákvörðun hlutfalls höfundar til hækkunar eða lækkunar skal meðal annars líta til tilkostnaðar útgefanda við útgáfuna og markaðssetningu verksins auk þess sem tillit verði tekið til sanngirnissjónarmiða.
Útgefandinn skal leitast við að haga útgáfu verksins þannig tæknilega að sem minnst hætta sé á misnotkun þriðja aðila á höfundarrétti að verkinu og í því skyni skal útgefandi nota viðurkennda tækni hvers tíma.
Höfundi er óheimilt, á meðan útgefandi á skilyrtan rétt samkvæmt grein þessari, að veita þriðja aðila aðgang að verkinu á rafrænan hátt í heild sinni hvort sem er gegn gjaldi eða ekki.

Miðað við ráðslag stærstu íslensku bókaúgefenda til þessa finnst mér verulega óskynsamlegt af höfundum að skrifa undir þessa samningsgrein. Útgefandi bókar getur átt réttinn til rafbókaútgáfu og dregið lappirnar í að gefa út rafbók í 21 mánuð, þ.e. tæp 2 ár, frá því pappírseintakið kemur út. Ekkert skyldar útgefandann til að bjóða verkið sem rafbók. Útgefandi pappírseintaksins ræður algerlega verði rafbókarinnar og verðlag íslenskra rafbóka til þessa gefur ekki tilefni til bjartsýni í sölu svoleiðis bóka.

Hitt er einnig til mikils vansa að íslenskir bókaútgefendur hafa tekið sig saman, flestir þeir stærstu a.m.k., um að gefa ekki út rafbækur fyrir Kindil, sem þó má ætla að sé algengast lesbretta (sjá t.d. tölulegar upplýsingar um niðurhal mismunandi skráategunda af Rafbókavefnum í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar). Ég velti því líka fyrir mér af hverju Forlagið birtir mynd af rafbók í Ipad á upplýsingasíðunni sinni um hvernig megi kaupa af því rafbækur – er það tilviljun að þeir völdu myndina iPad-E-book.jpg til að punta upp á þá síðu? Og er svona samráð, sem sést í vefverslun Forlagsins, löglegt?

Kindle lesbrettiÍ síðustu færslu var minnst á  skýringu vefverslunar Forlagsins á að selja ekki rafbækur til að lesa í Kindle. Sú skýring var áréttuð í frétt RÚV í vikunni, Stóraukning í útgáfu rafbóka (20. ágúst 2012). Ég skil ekki af hverju íslenskir bókaútgefendur krefjast þess að Amazon Kindle Store gefi út rafbækur á íslensku og séu í fýlu af því það er ekki gert. Amazon er risastór amrísk bókaútgáfa og af hverju ætti hún að gefa út bækur á tungumáli sem rúmlega 300.000 hræður á hjara netheima geta lesið? Ekki kröfðust íslenskir bókaútgefendur þess að bækur á íslensku væru til sölu í stærstu vefbókasölum heims til þessa, t.d. Amazon eða Waterstones. Í Amazon Kindle Store er auk þess fullt af íslenskum rafbókum til sölu á ensku, þýsku eða spænsku. Svoleiðis að það er ekki eins og íslenskir höfundar séu bannfærðir af Amazon 😉 Ég bendi þeim sem hafa áhuga á þessum málum eindregið á að lesa athugasemd Þorsteins Mars, forsvarsmanns útgáfunnar Rúnatýs, við þessa frétt RÚV, sjá Vegna fréttar um rafbækur. Áhugamenn um rafbækur hefðu líka gagn og gaman af því að lesa fleiri færslur á bloggi Þorsteins Mars.

Þótt Amazon selji Kindle-lesbretti og gefi út rafbækur á formi sem Kindlar lesa býður fyrirtækið upp á ódýrar viðbætur (app) fyrir önnur lesbretti, spjaldtölvur og síma.  Svo er auðvitað hægt að nota Calibre til að breyta skrám ætluðum Kindle í epub skrár … samt þarf fyrst að hlaða niður forriti til að brjóta upp mobi-skrá því Amazon læsir sínum skrám með afritunarvörn (DRM) ekkert síður en aðrir útgefendur. (Áhugamönnum um gildi og gagnsemi afritunarvarna er bent á kafla um þær í ritgerð Óla Gneista Sóleyjarsonar og á blogg Þorsteins Mars.) Þeir sem ekki geta hugsað sér að panta tæki frá vondu amrísku auðvaldsfyrirtæki geta keypt sér Kindil í Elko. Svoleiðis að ég kem alls ekki auga á hina illu einokun Amazon sem forsvarsmenn Félags íslenskra bókaútgefenda kveina undan og brúka sem afsökun fyrir lélegri þjónustu við viðskiptavini sína.

Viðbót: Þann 24. september bárust fregnir af því að Forlagið hefði séð að sér og hygðist nú bjóða upp á möguleika fyrir Kindileigendur: “Leysa á þetta mál með því að streyma bókunum á Kindle og geta notendur svo geymt bækurnar á Hillan.is.” Ég skil raunar ekki hvað átt er við: Er þá bara hægt að lesa bók frá Forlaginu í Kindli sem er tengdur netinu en ekki hægt að hlaða henni niður á Kindilinn? Ef það er “lausn” Forlagsins geta ráðamenn þar alveg eins gleymt þessu … þetta er þvílík hallærisredding að enginn Kindilnotandi mun hafa geð í sér til að brúka hana. Það hlýtur að vera að blaðamaður Viðskiptablaðsins hafi rangt eftir Agli Erni Jóhannssyni, framkvæmdarstjóra Forlagsins.
 

Hvaða áhrif hefur stefna Félags íslenskra bókaútgefenda og verðlagning á íslenskum rafbókum?

   

Það hlægir mig hve íslenskumafían (fræðimenn og almenningur sem er mjög umhugað um að bjarga íslenskri tungu frá meintri yfirvofandi glötun) fjasar mikið um nauðsyn þess að íslenska stýrikerfi og hugbúnað í tölvum og símum en virðist ekki hafa tekið eftir ástandinu þegar kemur að lesefni í þessum sömu græjum. Mér finnst miklu meira máli skipta að menn geti keypt nýjar bækur á íslensku í æpödduna sína eða símann sinn á sambærilegu verði og bækur kosta á ensku en hvort umgjörðin í þessum græjum birtist mönnum á íslensku eða ensku. Í Kindli er umgjörðin svo léttvæg að hún skiptir engu máli en texti bókanna sem maður les skiptir öllu máli (alveg eins og í prentútgáfu). Af hverju hafa málsvarar íslenskrar tungu ekki gagnrýnt óhóflegt verð  á rafrænum íslenskum bókum?

Ef íslenskir bókaútgefendur hysja ekki upp um sig brækurnar og horfast í augu við hvernig markaðurinn raunverulega er (í stað þess að einblína á hvernig hann ÆTTI AÐ VERA að þeirra áliti) missa þeir einfaldlega af lestinni mjög fljótlega og stórlesendur verða komnir upp á ágætt lag með að lesa á ensku eða austurnorrænum málum.  Ég hef engar áhyggjur af tæknivæddum íslenskum ungdómnum því mér vitanlega lesa unglingar sáralítið af bókum, hvort sem er á pappír eða í sínum spjaldtölvum og símum. (Það er vissulega áhyggjuefni út af fyrir sig en kemur ekki við efni þessarar færslu.) Rafbókalesendur eru nefnilega ekki fólkið sem les að eigin frumkvæði eina bók á ári eða svo. Rafbókalesendur eru fólkið sem les mikið af bókum og getur lesið einhver tungumál önnur en íslensku. Það fólk hugsar sig eflaust tvisvar um áður en það kaupir sér rafbók á íslensku.

Að lokum vil ég nefna að ég tel að séu stafræn gögn verðlögð skynsamlega og auðvelt að nota þau er miklu minni hætta á að fólk leggi sig niður við að stela þeim. Sem dæmi má nefna prjónauppskriftir. Á síðustu tveimur árum hefur mjög færst í vöxt að hönnuðir bjóði uppskriftir sínar til sölu á netinu. Ef vel-frágengin uppskrift kostar 500-600 kr., hægt er að greiða fyrir hana með kreditkortinu sínu á netinu og fá hana strax senda í tölvupósti þá kaupir maður auðvitað uppskriftina og leggur ekki vinnu í að telja hana út eftir myndum af gripnum. Ef svoleiðis uppskrift kostaði fleiri þúsund krónur lægju hrúgurnar af uppskriftum frammi á torrent bönkum … alveg eins og var raunin þegar íslensk tónlist á stafrænu formi kostaði formúu.
 

3 Thoughts on “Fáránleg verðlagning íslenskra rafbóka og einokunarstefna bókaútgefenda

  1. Sæl Harpa, það er mjög ánægjulegt að lesa pistla þína um rafbækur.
    Til upplýsingar: virðisaukaskattur var lækkaður á rafbækur 1.nóvember í fyrra. (http://www.vb.is/frett/67047/) Hann er því sá sami og á bókum, 7%.

    Við stofnendur Emmu vitum að fólk vill lesa og kaupa bækur. Það vill fá gott aðgengi, góða þjónustu og gott verð. Allar hindranir fæla fólk frá hvort sem þær eru notendatakmarkanir, flókin tækni (t.d. DRM) eða hátt verð. Hindranir fæla heiðarlega lesendur og beina þeim annað, hvort sem það er á erlendar rafbókaverslanir eða bókasöfn. Þess vegna bjóðum við allar bækur hjá okkur fyrir öll lestæki. Það er líka ástæða þess að við afþökkuðum að selja DRM varðar rafbækur frá rafbókalagernum (Forlaginu).

    Varðandi Amazon og íslenskar bækur þá er ég ósammála því að setja markið á að dreifa íslenskum rafbókum fyrir íslenskan markað þar. Ég vil benda á að Amazon tekur 30% af verði hverrar seldrar bókar, hlutur sem færi þannig “út úr landinu”. Mér finnst mun eðlilegra að dreifa íslenskum rafbókum innanlands og byggja upp þá þjónustu hér.

    Það er alveg með ólíkindum hve íslenskir bókaútgefendur hafa dregið lappirnar með rafbókaútgáfu og gera enn. Við erum mörgum árum á eftir öðrum löndum í þessum efnum. Bókaútgefendur virðast almennt ekki gera sér grein fyrir því hve mikil aukning hefur orðið á erlendum rafbókakaupum vegna skorts á íslenskum rafbókum. Fjöldi fólks er nú orðinn svo vant því að lesa allt sitt efni á erlendum tungumálum að það hefur ekki lengur áhuga á íslensku efni. Mér hefur þótt það sérstaklega miður hvað bókaútgefendur sem ég hef rætt við einblína á mögulegar hættur, ógnir og veikleika en ekki alla þá möguleika sem felast í rafbókaútgáfu.

    Varðandi verðlag rafbóka þá væri hægt að skrifa langan og ítarlegan pistil um kostnað, framleiðslu og ýmiskonar viðskipta”módel”. Án þess að fara of ítarlega í það er í stuttu máli hér á ferðinni gap á milli væntinga seljenda og kaupenda. Ég tel að íslenskar rafbækur verði seint eða aldrei á sambærilegum verðum og erlendar rafækur einfaldlega vegna þess hve markaðurinn er smár en rafbókin ætti þó að vera ódýrari en sú prentaða. Hjá Emmu stjórna útgefendur verðinu sjálfir, sem skýrir mjög ólík verð á bókum hjá okkur. Við höfum hinsvegar hvatt útgefendur til þess hafa verð á rafbókinni að minnsta kosti 10-25% ódýrara en verð pappírsbókar hvers tíma.

    Það hefur margt gerst á íslenska rafbókamarkaðnum undanfarið ár og það á ýmislegt eftir að gerast á allra næstu mánuðum. Við finnum fyrir vaxandi áhuga á rafbókalestri og rafbókaútgáfu. Það er sannarlega spennandi að taka þátt í þessarri þróun á Íslandi.

  2. Ó, mér datt í hug að virðisaukaskatturinn hefði verið lækkaður en fann í fljótu bragði ekki upplýsingarnar. Kærar þakkir fyrir þetta, Óskar Þór, ég breyti færslunni í kvöld.

    Og kærar þakkir fyrir aðrar upplýsingar og vangaveltur í athugasemdinni þinni.

  3. http://www.orthus.is/vorur/

    Endilega kíktu á okkar vörur 🙂 við erum með þær eins ódýrt og hægt er.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation