Gulli og Múlinn og Sagan

Súper MúliJæja! Enn og aftur ætlar Akraneskaupstaður að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun 3. bindis Sögu Akraness, í þetta sinn upp á krít. Sagnir herma að þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og sagnaritarinn mikli ætli að skrifa undir samning á morgun.

Í færslu sem ég skrifaði fyrir ári síðan, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku, rakti ég sögu handritsins sem nú kallast 3. bindi Sögu Akraness og spannar nítjándu öld. (Þeir sem hafa áhuga á Sögu Sögu Akraness, vefrits sem stefnir í að verða álíka langloka og Saga Akraness ef svo heldur fram sem horfir, geta hlaðið niður því sem tilbúið er í þeirri sögu á pdf-formi.)

  • Skil á þessu bindi voru fyrst staðfest árið 2001, þ.e.a.s. fyrsta bindi (af þáverandi áætluðum þremur bindum) um byggðasögu 1700-1900. Eftir að Ritnefnd um sögu Akraness undir forsæti Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra (sem nú stjórnar Faxaflóahöfnum) staðfesti þessi skil kom í ljós að talsvert vantaði inn í stykkið og gerður var nýr samningur við Gunnlaug Haraldsson um að skrifa það sem á vantaði.
  • Snemma árs 2003 sagði Gunnlaugur ritnefndinni að hann væri nánast búinn að ljúka sögu Akraness til ársins 1941.
  • Í mars 2005 segir Gunnlaugur Ritnefndinni að nú vanti einungis herslumuninn á að klára Sögu Akraness frá landnámi til 1941 og er bókað á 55. fundi Ritnefndarinnar: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.“ Því sama hélt Gunnlaugur fram á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
  • Í ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs Haraldssonar í apríl 2008 kemur fram að „Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) – bíður prentvinnslu.“
  • Í janúarbyrjun 2010 sagði Gunnlaugur í viðtali við Vísi.is „að hann sé búinn að rita sögu Akraness til 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“
  • Í nóvember 2010 staðfesti Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, bókaforlagsins sem gaf út 1. og 2. bindi Sögu Akraness, að 3. bindið sé nú þegar skrifað.
  • Í júní 2011 hafði Skessuhorn eftir Gunnlaugi Haraldssyni að „fyrir liggur að „færa til nútíðarmáls“ handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“

Á árabilinu 2001, þegar fyrst voru staðfest skil á ritun Sögu Akraness á 19. öld, til ársins 2011 hefur Akraneskaupstaður gert fjölda samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness. Alls hefur Akraneskaupstaður pungað út 110 milljónum fyrir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar og útgáfu á fyrstu tveimur bindunum í Sögu Akraness.

Ritnefnd um Sögu Akraness hélt fund þann 23. mars 2012. Það stingur óneitanlega í augu að einungis tveir af fimm nefndarmönnum mættu á fundinn, formaður Ritnefndar og tveir nefndarmenn voru fjarverandi. Fundargerðin er á hálfgerðu dulmáli:

1. Saga Akraness, 3. bindi. Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Á fundi bæjarráðs Akraness 25. maí sl. var bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
Drög að samningi um ritun Sögu Akraness III bindis ásamt tölvupósti Gunnlaugs Haraldssonar dags. 23. mai 2012.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.  Bæjarstjóra falin undirritun hans.  Einar [Brandsson] óskar bókað að hann sé ósammála ákvörðun bæjarráðs.   

Á bæjarstjórnarfundi í gær, 12. júní 2012, var fundargerð bæjarráðs lögð fram. Til máls tók Einar Brandsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en aðrir þögðu þunnu hljóði eins og venjulega (efst í fundargerðinni sem ég kræki í er krækja í hljóðskrá af fundinum). Í máli Einars kom fram að samningurinn sem bæjarráð samþykkti er þriggja ára samningur Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um að bærinn greiði honum 14,5 milljónir á þremur árum fyrir að ganga frá textanum í 3. bindi Sögu Akraness. Ég veit að Kristján Kristjánsson hefur sett það skilyrði að hann verði sjálfur ritstjóri þessa bindis (væntanlega til að gloríur í myndbirtingu endurtaki sig ekki) svo varla er ætlast til að bæjarstjóri undirriti samning við Gunnlaug um allsherjarritstjórn eins og síðast. En mögulega er uppsetning (layout) verksins innifalin í samningnum þótt verði svo að semja við Kristján um eftirlit með þeirri uppsetningu síðar og bærinn verði auðvitað að borga lungann af prentkostnaði því bækurnar seljast vægast sagt takmarkað.

Á fjárhagsáætlun þessa árs, 2012, er gert ráð fyrir 4,2 milljónum í Sögu Akraness. Má af ummælum á bæjarstjórnarfundi í gær ætla að Gunnlaugur fái 4 milljónir í ár – kannski fara tvöhundruðþúsundin upp í þennan tæpa fjögurhundruðþúsundkall sem móðgelsi bæjarstjórans yfir ritdómi kostaði bæinn?  Á langtímaáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að eyða 4 milljónum næsta ár, 2013, í Sögu Akraness. Þær 4 milljónir renna beint í vasa Gunnlaugs ef samningurinn hans og Árna Múla verður undirritaður á morgun. Loks hljóðar samningurinn við Gunnlaug Haraldsson upp á rúmar 6 milljónir fyrir vinnu árið 2014. Í samningnum er sá varnagli sleginn að bæjarstjórn eigi eftir að samþykkja þessar fjárveitingar fyrir árin 2013 og 2014. Nú á sem sagt að semja við sagnaritarann upp á krít. Og augljóst að ef bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir ekki fjárveitingarnar sem bæjarstjórinn lofar upp í ermina á kaupstaðnum er þessum 4 milljónum sem Gunnlaugi verða réttar í ár kastað á glæ. Fyrir svo utan það að enginn í bæjarstjórn, bæjarráði eða ritnefnd um Sögu Akraness virðist hafa kveikt á því að Akraneskaupstaður er margbúinn að greiða Gunnlaugi áður fyrir ritunina um þetta tímabil. Af hverju sækir okkar góði bæjarstjóri ekki bara handritið og skellir því í prentsmiðju?

Í dag, 13. júní 2012,  hélt bæjarráð fund. Þar er bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
 Samningur við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness, III bindi. Samningurinn gerir ráð fyrir verktíma árin 2012 – 2014.
 Afgreiðslu frestað.

Ég reikna með að afgreiðslu bæjarráðs í dag hafi verið frestað af því þeir Árni Múli og Gunnlaugur skrifa ekki undir samninginn fyrr en á morgun …

4 Thoughts on “Gulli og Múlinn og Sagan

  1. Form. ICBS on June 13, 2012 at 22:01 said:

    Yfirleitt telst það næg ástæða fyrir endurgreiðslu ef verk er ekki unnið eða vara ekki afhent. Venjuleg endurgreiðsla fer þannig fram sá sem borgaði fær peninginn aftur til baka. Hér hefur þróast ný gerð endurgreiðslu (recompensatio mulencis) sem felst í því að fyrir verk sem ekki er unnið eða vöru sem ekki er afhent er borgað aftur og aftur þangað til allir peningar eru búnir og gjaldandi perditissimis eða á köldum klaka eins og sagt er hér norður frá.

  2. Hvernig er hægt að semja við Gunnlaug? Ég hélt að Páll Baldvin hefði “tekið hann af lífi”!

  3. Gunnlaugur á greinilega fleiri líf en kötturinn …

  4. Svo virðist sem fimmtudagsundirritun Árna Múla og Gunnlaugs sagnaritara hafi verið frestað af því bæjarráð ákvað á síðasta fundi að fresta samningnum (samningnum sem bæjarráð samþykkti “fyrir sitt leyti” á næstsíðasta fundi). Ég reikna með að um þessa ákvörðun bæjarráðs gildi hið sama og um ákvörðun bæjarins um að fella niður Hátíð hafsins (fyrir Sjómannadaginn) og skrúðgönguna á 17. júní: Bærinn ákveður að hætta við eitthvað og hættir svo við að hætta við … stundum of seint. Stjórnunarhættir hér á Akranesi verða æ meir spennandi!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation