Skóli og geðveiki

Gagnrýnin hugsunKannski hefði fyrirsögnin frekar átt að vera “námskrárfræði og geðraskanastaðlar” … Ég hef sumsé brugðið mér í gamalt hlutverk, “hinnar greindu alþýðukonu”, og lesið yfir ritgerð mannsins um stefnur og strauma í námskrárfræðum: Sé ekki betur en margt sé líkt með skyldum, þ.e. poppfræðum sem varða skóla og geðveiki.

Nú eru nokkur ár síðan ég var eitthvað í alvörunni að pæla í námskrá framhaldsskóla og hvernig maður matsaði kennsluáætlun þokkalega við svoleiðis. Og ég er búin að gleyma miklu og hef alveg misst af umræðu síðustu ára um nýju námskrána með skemmtilega geggjuðu yfirmarkmiðunum. En eftir að hafa gegnt hlutverkinu “greind alþýðukona sem les námskrárfræði” síðasta árið (maðurinn hefur nefnilega alltaf prófað sínar greinar og texta á mér: Skilji ég ekki textann þarf að laga hann) hef ég einhverja hugmynd um út á hvað þessi nýja námskrá gengur, út á hvað síðasta námskrá gekk og að framhaldsskólakennarar eru almennt ekki svo vitlausir að halda að þetta skipti einhverju máli í kennslu.

Skömmu eftir stríð (seinni heimstyrjöldina) hófust vinsældir “ferskrar skynsamlegrar markmiðssetningar” í námskrá. Ég man eftir helstu uppskriftarfræðingunum úr ukkinu; Bobbit og Tyler og Bloom og kannski Taba. Í einfölduðu máli má segja að uppskriftarpoppfræðingarnir sem eru sívinsælir á Menntavísindasviði og líklega í félagsfræðigreinum almennt telji að í námskrárgerð sé best að byrja með hreint borð (sumsé kasta öllum hefðum fyrir róða), setja yfirmarkmið og greina svo æ smærri undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum beint, án tillits til faga og fræðigreina. Þessi undirskipun eða beina þjónkun er hins vegar ómöguleg í flestum fögum.

Ég skrunaði yfir almennan kafla nýju námskrárinnar og þrátt fyrir aldarfjórðungsreynslu af kennslu í framhaldsskóla fannst mér að textinn hlyti að fjalla um eitthvað annað en skóla – er hann kannski saminn af fólki sem hefur lítið komið inn í svoleiðis stofnanir?  Hvað í ósköpunum er “menntun til sjálfbærni”, hugtak sem er margtuggið í þessum texta? Ég sé helst fyrir mér áfanga í tóvinnu … Taldir eru upp sex grunnþættir alls náms, síðan níu svið lykilhæfni o.s.fr.; Námskráin er sumsé draumur hvers sortéringarsinna!

Svo tékkaði ég á markmiðum í mínu fagi, íslensku (s. 93), sem eiga á mjög dularfullan og illskiljanlegan hátt að þjóna hinum sex grunnþáttum og hinum níu lykilhæfnisviðum og sé ekki betur en námskröfur slagi hátt í mastersnám á háskólastigi, t.d.:

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.

eða

Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.

Ég er ansi hrædd um að helstu ráðamenn þjóðarinnar, t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi hafi nú ekki náð þessum tveimur markmiðum, a.m.k. ekki því síðarnefnda. Er raunhæft að krefast þessarar getu af nýstúdentum?  Hver ætli séu þessi lykilhugtök og mismunandi sjónarmið sem talin eru í fyrra dæminu? Og heldur einhver í alvöru að nemendur leggist almennt í Grágás, Íslensku hómilíubókina, dróttkvæði, annála, stærðfræðitexta, rannsóknarskýrslur, manntöl, áttvísi, læknisfræði o.m.fl. sér til gagns og gamans, skilji þar í einhver dularfull lykilhugtök og greini mismunandi sjónarmið í hvers lags texta sem er eins og að drekka vatn, eftir að hafa klárað stúdentspróf?

Blessunarlega hugsa ég að fólkið á gólfinu, þ.e. nemendur og kennarar, láti þá hátimbruðu smíð sem nýja námskráin er bara eiga sig og haldi áfram að kenna og (vonandi) læra eins og tíðkast hefur til þessa.

En mér datt í hug, lesandi um þessa tæknihyggju í námskrárgerð, þ.e. að halda að hægt sé að setja einhver absólút yfirmarkmið ótengd fögum (sem má þess vegna kalla grunnþætti og svið lykilhæfni) og fella síðan allt nám og öll fög í undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum …  að sams konar  tæknihyggja speglist ákaflega vel í sjúkdómastöðlum og þeirra sortéringum. Má nefna DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) Bandarísku geðlæknasamtakanna sem fyrst kom út 1952 eða náfrænda hans, ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út og er einmitt brúkaður hér á landi.

DSM á rætur sínar að rekja til flokkunarkerfis Bandaríska hersins, sem spratt m.a. af þörf á að greina alls kyns krankleik á geði þeirra hermanna sem snéru heim úr seinna stríði. Í hverri nýrri útgáfu DSM hefur skilgreindum geðröskunum fjölgað og skilgreiningar orðið nákvæmari. Fyrstu þunglyndislyfin, þríhringlaga geðlyfin, voru upp fundin (óvart) laust eftir 1950. Svo merkilegt sem það nú er hefur þróun þunglyndislyfja og aukið framboð haldist nokkuð í hendur við aukna smásmygli í og aukið framboð á skilgreiningum þunglyndis í DSM.

Alveg eins og tæknihyggja í námskrárgerð hefur ekki sýnt sig í betra námi eða betri skólum hefur tæknihyggja í þunglyndisgreiningu og fleiri gerðir þunglyndislyfja sem passa við sífellt nákvæmari skilgreiningar og undirgreiningar ekki sýnt sig í fækkun þunglyndissjúklinga. Kannski mætti líta á lyfin eins og undirmarkmiðin í tæknihyggjunámskrárgerð: Lýsingarnar hljóma sosum ljómandi vel en praktísk not eru heldur léleg.

Kann að vera að nákvæmlega sama aðalatriðið gleymist: Við erum nefnilega að tala um eitthvað sem snertir fólk, þátttakendur í margbreytilegu mannlífi. Kann að vera að hátimbruð markmið og smættun ofaní mælanleg undirmarkmið líti vel út á pappír en gagnist minna þegar fólk á að nota þau á annað fólk, hvort sem er til að koma því til nokkurs þroska og til að mennta það eða til að lækna það.

Sem betur fer held ég að bæði góðir kennarar og góðir geðlæknar geri sér þessar takmarkanir vel ljósar. Alveg eins og kennari þarf að geta tekið því að nemendur kjósi að baka Borg á Mýrum og bjóða öllum upp á að éta hana, í stað þess að flytja fyrirlestur um Borg eða skrifa ritgerð um Borg, tekur góður geðlæknir tillit til umhverfis og væntinga síns sjúklings og styður hann í því sem hann vill gera til síns bata.  Eftir margra daga bakstur, mælingar og útreikninga og kökumódelsmíð með glassúr má ætla að nemendur gjörþekki umhverfið á Borg á Mýrum, líklega betur en hefðu þeir búið til Power Point glærusýningu og flutt fyrirlestur um efnið. Eftir vandlegar og ítarlegar pillutilraunir árum saman og raflostmeðferðir má ætla að þunglyndissjúklingur þekki orðið nokkuð vel hvað virkar, öllu heldur hvað virkar ekki, við sínum sjúkdómi.

Í praxís taka góðir geðlæknar væntanlega jafnlítið mark á DSM/ICD og þunglyndislyfjaáróðri og góðir íslenskukennarar taka lítið mark á vaðli um grunnþætti, lykilhæfnisvið og innantómu markmiðskjaftæði í námskrá.

  

Svona aukalega sting ég því inní þessa færslu að lokum að sem ég var að lesa eigið blogg árið 2006 komst ég að því að síðsumars það ár hef ég hnakkrifist við Helga nokkurn Ingólfsson og ekki vandað honum kveðjurnar (sem var að vísu gagnkvæmt). Ásteitingarsteinninn var fyrirhuguð stytting náms til  stúdentsprófs … Það er svo sem ekkert allt jafn sorglegt í lestrinum um lífið mitt sem hvarf í blakkátið/tómið mikla 😉 

6 Thoughts on “Skóli og geðveiki

  1. Helgi Ingólfsson on June 12, 2012 at 21:30 said:

    Jamm, Harpa mín, árið 2006 var nú ágætt ár til ritdeilna. 🙂

    Annars var, held ég, ekki svo ýkja langt á milli okkar hugmyndafræðilega, heldur frekar svona menntunarpólitískt séð: Ég að verja hið steinrunna, staðnaða og forstokkaða bóknámskerfi og þú að verja framsækna fjölbrautaskólakerfið … 🙂
    —–
    Úr einu í annað: Þessi flokkunarárátta í menntakerfinu, með 3 markmið, og (í íslensku) 6 grunnþætti og 9 lykilhæfnisvið – þetta minnir mig nú bara á búddisma. Þar eru 4 sannindi og síðan hinn 8-faldi vegur með hinum 5 boðorðum. Menn voru augsýnilega byrjaðir á þessari flokkunaráráttu fyrir 2500 árum.:) Skyldi Siddartha hafa verið í námskrárnefnd þarna á Gangessléttunni?
    —–
    Ég las aðra af greinum bónda þíns um daginn (og renndi yfir hana áðan, til upprifjunar) og get innilega tekið undir honum um mikilvægi opinnar og breiðrar menntunar (“leiðarstjörnu-menntun”). Svo er bara að vita hvort minn fuglaheili hafi skilið greinina rétt. 😉 Gaman var að rekast líka á gamlan kunningja úr ukk-fræðunum, sjálfan Stenhouse … 🙂
    —–
    Smá athugasemd við síðustu færslur þínar (sem ugglaust lenda á vitlausum stað, en þú skilur vonandi hvað ég meina): Fyrir rúmum 7 árum sagði ég skilið við minn besta vin Nikótín. Og þá fór nú heilsunni virkilega að hraka. Svefnleysi/andvökur/svefnraskanir voru einn fylgikvillinn, svo að ég hóf að bryðja Imovane af miklum móð. Fyrst hálfa töflu (3,75mg) og eftir 1 ár heila töflu. Þennan ófögnuð át ég í 5 ár og fór þá að fá ýmsa varianta (svokallað mianserin stundum inn á milli). Fyrir mánuði ákvað ég að ég nennti ekki lengur þessum Imovane-bransa og tók mig bara af því sjálfur (nema ef þá nauðsyn skyldi bera til að ég þurfi að sofna snemma til að geta vaknað afar árla). Hér skipti lykilmáli að ég var að komast í sumarfrí, þegar ég lagði svefnlyfið til hliðar. Í stuttu máli finn ég engan mun á mér líkamlega án lyfsins, nema hvað ég þarf aðeins enn að rétta kúrsinn (hef tilhneigingu til að fara að sofa kl 2-3 á nóttunni og sofa 7-8 tíma þaðan frá.)

    En mikið skrambi sakna ég míns gamla vinar hr. Nikótín … 🙂

  2. Form. ICBS on June 12, 2012 at 22:16 said:

    Af hverju er ekki haft sjö af öllu eins og í gamla daga? Sjö höfuðdyggðir, sjö dauðasyndir, sjö undur fornaldar, sjö gáfur heilags anda, sjö sorgir Maríu Meyjar – himintunglin vor sjö og heimshöfin líka og svo voru sjö litlar mýs og dvergarnir sjö. Það ættu líka að vera sjö bleikar pillur og sjö gular við sjö kvillum hugans og sjö markmið náms.

  3. Styð sjöhugmynd formanns blágrænuþörungavinafélagsins (ICBC) en minnir samt að höfuðdyggðir og dauðasyndir hafi upphaflega verið átta talsins (einhver kirkjufaðir turnaði þeim og fækkaði oní sjö – ef ég man rétt eru þessar gömlu góðu átta taldar upp í Íslenskri hómilíubók).

    – – –

    Heyrt hef ég að upphaflega hafi og höfuðdyggðir námskrárinnar verið fimm talsins (ákaflega hallærisleg tala, ég veit það) en íþróttakennarar hafi svo rekið upp ramakvein (enda góðir í svoleiðis) og núverandi menntamálaráðherra stungið inn þeirri sjöttu, heilbrigði. Eins og ég rökstuddi við eldhúsborðið áðan er kennsla Eglu þar með úr myndinni nema einungis til að benda á Egil fylliraft og vígamann sem víti til varnaðar!

    – – –
    Ein skýringin á því hve nýja námskráin er óvenju ga-ga af námskrá að vera er sú að fyrri hlutinn (grunnþáttafræðin og sviðin lykilfærninnar) var saminn óháður seinnihlutanum (þar sem m.a. má finna markmið íslenskukennslu og fleiri greina). Þess vegna er nákvæmlega ekkert samhengi milli þessa tveggja og í rauninni stangast þetta á. En það býttar engu, það fer enginn óbrjálaður kennari eftir þessu.

    – – –
    Auðvitað erum við sammála bónda mínum um leiðarstjörnur og kennslu í anda húmanisma, Helgi. Annað væri nú engin hemja svo skynsöm sem við erum bæði!
    – – –
    Rifrildið mikla um styttingu náms til stúdentsprófs og skipan íslenskukennslu í hefðbundnum menntaskóla versus fjölbraut var náttúrlega fyrst og fremst til að æfa listina að rífast. Hún er vanmetin 😉

    Hin ægilegu fráhvarfseinkenni af því að hætta á bensólyfinu (Rivotril) og svefnlyfinu (Imovane) reyndust ekki vera fráhvarfseinkenni. Þegar augað í mér stokkbólgnaði og mér datt í hug að mæla mig og komst að því að ég væri með 38 stiga hita (og hef sennilega verið með hann nokkuð lengi) dreif ég mig til læknis, var greind með skútabólgu/sýkingu í alls konar holudrasli í hausnum og sett á pensillín. Held að pensillínið sé einmitt að byrja að virka akkúrat núna. En ég var búin að lesa þvílíkar hryllingssögur um fráhvörf að ég skrifaði bara allt á fráhvarfareikninginn (en venjulega skrifa ég öll líkamleg óþægindi á þunglyndi eða kvíða … ætti kannski að fara að venja mig af þessum einföldu hindurvitnaskýringum vestrænnar læknisfræði).

    Hef margoft hætt á Imovane, þetta er svona on/off lyf gegnum tíðina, og aldrei fundist neitt mál fyrr en núna. Til öryggis ætla ég samt að trappa það fagmannlega niður að læknisráði í þetta sinn. Mianserin er, held ég, eitt af fáum lyfjum sem ég hef ekki prófað.

    Hef þrisvar hætt að reykja. Það er alger hryllingur! Maðurinn hefur bara einu sinni hætt að reykja því honum fannst það svo erfitt: Í gegnum þetta helvíti geng ég bara einu sinni, sagði hann karlmannlega, og er þess vegna enn reyklaus 😉 Fr. Dietrich ræktar talsvert af Virgínutóbaki í sínu gróðurhúsi og hér í stofugluggum … að vísu þarf að kæsa blöðin og þurrka svo en líklega getum við Jósefína svælt í okkur heimaræktað einhvern tíma í vetrarbyrjun …

  4. Svo finnst mér rétt að komi fram að Borg á Mýrum smakkaðist einkar vel þarna um árið.

  5. Pétur Reimarsson on June 13, 2012 at 09:21 said:

    Kunningi minn sagði að það væri ekkert mál að hætta að reykja. Hann væri búinn að hætta 200 sinnum.

  6. Helgi Ingólfsson on June 13, 2012 at 13:56 said:

    Mér líst ágætlega á uppástungu formanns ICBS (aths. 2), að miða allt við töluna “sjö”. Það gæti líka auðveldað stærðfræðikennslu. Bæta má við upptalningu formannsins og benda á sjöstirnið, vikudagana sjö, hina sjö arma Menórunnar (gyðingaljósastikunnar) og að samkvæmt guðspjöllunum beri að fyrirgefa sjötíu sinnum sjö sinnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation