Skýrsla óháðu nefndarinnar og eftirmál

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Á fundi háskólaráðs 5. maí sl. skipaði háskólaráð nefnd þriggja óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndinni var jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta í ljósi reynslunnar.

Nefndin skilaði skýrslu til Háskólaráðs þann 14. september 2011 og hún var til umfjöllunar á fundi Háskólaráðs þann 13. október 2011. Í fundargerð þess fundar er tengt í skýrsluna.

Háskólaráð samþykkti að breyta starfsreglum siðanefndar í kjölfar úttektar óháðu nefndarinnar. Breytingarnar eru smávægilegar og einna helst þær að skerpa á starfsreglunum eins og þær voru fyrir. Í ályktun Háskólaráðs vegna skýrslunnar, þann 13. október síðastliðinn, segir m.a.: 

Kæra í máli siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010 var dregin til baka og er málinu þar með formlega lokið. [—]

Fyrir liggur að ekki var tekin efnisleg afstaða til álitaefnisins í máli siðanefndar nr. 1/2010 og hinni óháðu nefnd var ekki falið það viðfangsefni.

Af hálfu Háskóla Íslands er af málinu í heild dreginn sá lærdómur að tryggja verður eftir mætti formfestu og trúnað í meðferð mála siðanefndar innan háskólans. [—]

Í annan stað eru athugasemdir og ábendingar um aðkomu yfirstjórnar og stjórnsýslu háskólans að málinu teknar til greina. [—]

Síðan segir að Háskólinn muni gera sitt til að sárindi vegna málsins megi gróa um heilt og að fela þremur starfsnefndum Háskólaráðs „að standa sameiginlega að faglegri umfjöllun um siðferðilegar hliðar akademísks frelsis í kennslu og rannsóknum fyrir lok janúar 2012, með opnu málþingi um efnið.“
 

Áfellisdómur óháðu nefndarinnarMeginniðurstaða Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð var að siðanefnd hefði ekki í upphafi máls lagt sjálfstætt mat á hvort kæra Vantrúar snerti siðareglur Háskóla Íslands, eins og henni bar að gera skv. 4 gr. starfsreglna siðanefndar og að siðanefnd hafi heldur ekki gert þetta á síðari stigum. Aðrar niðurstöður eru m.a. gagnrýni á óformleg samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila í stað þess að tala við þá á fundum siðanefndar, að lögfræðingur HÍ skuli hafa verið látinn starfa fyrir siðanefndina, að siðanefnd hafi staðið fyrir að reyna að sætta Vantrú og guðfræði- og trúarbragðafræðideild án nokkurrar aðkomu Bjarna Randvers Sigurvinssonar og að óviðunandi sé, fyrir HÍ og málsaðila, að ekki skuli hafa tekist að ljúka málinu efnislega. (Sjá s. 6-9 í þessari skýrslu.)

Þann 4. desember 2011 birti Morgunblaðið fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, þar sem málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, byggður á kærum Vantrúar, var rakinn frá upphafi til þess dags. (Raunar var greinin Heilagt stríð Vantrúar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og var því dreift daginn áður, þann 3. desember 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Henni var fylgt eftir með annarri grein viku síðar, Einelti vantrúarfélaga, en sú grein er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins.)

Fréttaskýringin vakti strax mjög mikla athygli. Til þessa höfðu birst fréttir af málinu á stangli, eftir að háskólakennarar gerðust stuðningsmenn Bjarna Randvers í æ ríkari mæli, en aðallega hafði verið fjallað um málið af hálfu Vantrúar, í gífurlegum fjölda greina á vef félagsins og bloggum félagsmanna.

Þann 5. desember 2011 birtist grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu. Greinin heitir Banntrúarmenn. Í henni fjallar Guðmundur Andri um upplifun sína af lestri fréttaskýringar Barkar Gunnarssonar, um félagið Vantrú eins og það kemur honum fyrir sjónir, um akademískt frelsi og loks undrast hann mjög vinnbrögð siðanefndar. Í greininni segir Guðmundur Andri m.a.:
 

Sem sagt. Það á að þurfa mikið til að grípa fram fyrir hendurnar á kennara og veita honum áminningu. Þegar kennari í guðfræðideild víkur að félagsskapnum Vantrú í tímum í guðfræði er hann væntanlega að skoða þennan félagsskap í tilteknu samhengi sinna fræða, á tiltekinn akademískan hátt eins og honum er bæði frjálst og skylt að gera í þessu umhverfi. Félagsskapurinn Vantrú hafði fregnir af því að Bjarni Randver hefði fjallað um starfsemi hans og annarra félaga. Þeir sáu þá gullið tækifæri til að gera guðfræðideild HÍ og þessum kennara alveg sérstaklega lífið leitt, sem svo sannarlega hefur tekist: Bjarni Randver situr nú uppi með mikinn lögfræðikostnað og mikla armæðu við að verjast atlögum hinna kátu félaga í Vantrú, sem samkvæmt grein Barkar virðast hafa skipulagt látlausar árásir á Bjarna til að hrekja hann úr starfi fyrir þær sakir að hafa ekki farið þeim orðum um félagsskapinn sem félagsmenn töldu tilhlýðilegt. Ekki er að sjá að Siðanefnd hafi gætt þess að Bjarni fengi sanngjarna málsmeðferð og það er ekki fyrr en Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, gengur í málið vegna þess að honum ofbýður málatilbúnaðurinn, að Bjarni fær stuðning innan veggja HÍ.

Það er alltaf hættulegt þegar hugmyndabaráttan fer yfir á svið lögfræðinnar. Það er alltaf ömurlegt þegar hópur manna hefur samráð um að ráðast að einum einstaklingi.
 
 

Þann 5. desember 2011 var viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi á RÚV þar sem hann gerði grein fyrir þessu máli. Yfirskriftin var Vantrú gegn stundakennara HÍ (hér er krækt í þennan hluta Kastljóss.)

Fréttir af máli Bjarna RandversDaginn eftir, 6. desember 2011, birtust a.m.k. tvær fréttir þar sem Eyjan dró taum vantrúarfélaga, Einelti fjarri lagi segja Vantrúarmenn. Hafna málatilbúnaði stundakennara, (sem nutu þó lítils stuðnings í umræðuþræði við fréttina) og Morgunblaðið lýsti sjónarmiðum Bjarna Randvers og Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors, Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað. Eins og titill síðarnefndu fréttarinnar ber með sér vill Bjarni Randver fá bættan sinn skaða. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ segir þar að Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi unnið í góðri trú og „viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað.“ Hún vísar til þess að almennt hafi lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til siðanefnda ekki verið greiddur af stofnunum sem reki siðanefndirnar [en Bjarni Randver vill að HÍ greiði lögfræðingnum sem hann neyddist til að fá sér í meðferð siðanefndar.). Kristín áréttar sjálfstæði siðanefndar HÍ og þess vegna hafi rektor ekki átt að skipta sér neitt af málinu. Að lokum er haft eftir Kristínu Ingólfsdóttur í þessari frétt: „Kristín hafnar því að skýrslan sé áfellisdómur yfir siðanefnd. Málið hafi undið upp á sig af mörgum ástæðum og orðið að stóru máli.“ (Feitletranir eru mínar.)
 
 

Þann 8. desember 2011 birti Morgunblaðið aðsenda grein Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar HÍ, Greinargerð í siðanefndarmáli. (Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar en Þórður veitti Vantrú leyfi fyrir birtingunni. Lesendur athugi að Vantrú hefur lokað fyrir aðgang að eigin síðum af þessu bloggi. Ég hef fjallað um hluta þessarar greinar í færslunni Meðferð kæru Vantrúar í höndum Þórðar Harðarsonar o.fl. í siðanefnd HÍ.) Gagnrýni óháðu nefndarinnar á störf Þórðar og siðanefndar undir hans stjórn svarar Þórður svona:
 

Loks er að geta um niðurstöður hinnar óháðu nefndar háskólaráðs um störf siðanefndar. Ekkert kemur fram í niðurstöðum hennar, sem kalla má áfellisdóm um þau. Til dæmis er ekkert tekið undir ásakanir um hlutdrægni. Tvennt er einkum gagnrýnt:

1) Nefndin tók ekki kæruna formlega fyrir. Því er til að svara, að með því að fara í sáttatilraunir var kæran tekin fyrir. Annars hefði henni verið vísað frá.

2) Of mikið af starfi nefndarinnar (formanns) fór fram utan funda nefndarinnar. Því er til að svara, að formaður kann ekki aðra aðferð en trúnaðarsamtöl, ef leita á sátta milli aðila í viðkvæmu deilumáli

Þann 9. desember 2011 andmælti Pétur Pétursson, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og starfandi deildarforseti í siðanefndartíð Þórðar, honum harkalega í grein í Morgunblaðinu, Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar. (Greinin er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins. Ég vitnaði í þessa grein í sömu færslu og fyrr var vísað til). Pétur lauk máli sínu þannig:

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins. Í skugga þess valds starfar formaðurinn og hann beitir því bæði af lagni og lævísi. Það hef ég fundið á eigin skinni frá upphafi og nú í þessari Morgunblaðsgrein hans. Það er óásættanlegt að hann sitji áfram sem formaður siðanefndarinnar eftir þann áfellisdóm sem óháð rannsóknarnefnd á vegum Háskólaráðs felldi yfir störfum hans í skýrslu sinni í október sl.
 

hópur stuðningsmannaÞann 13. desember 2011 birtist yfirlýsing yfir hundrað háskólakennara um málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni í höndum siðanefndar HÍ í mörgum fjölmiðlum. Hér er krækt í hana í Fréttablaðinu, Yfirlýsing vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Í yfirlýsingunni segir m.a.:
 

Meginatriði málsins eru þó einföld. Strax í upphafi kæruferlisins, snemma árs 2010, braut Siðanefnd Háskóla Íslands á rétti stundakennara við HÍ með svo alvarlegum hætti að hún spillti málinu öllu. Siðanefnd lagði fram sáttatillögu þar sem fallast átti á sekt kennarans án samþykkis hans. Þetta gerðist áður en siðanefndin hafði aflað sér gagna í málinu og var kennaranum með öllu haldið utan við málsmeðferðina.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kennarinn hafi á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur HÍ. [- – -]

Skýrsla rannsóknarnefndar þeirrar sem háskólaráð skipaði er alvarlegur áfellisdómur um vinnubrögð siðanefndarinnar, sem því miður tók afstöðu gegn Bjarna Randveri með sáttatillögu þar sem Guðfræði- og trúarbragðafræðideild átti að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið feli ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn.“ Kærandinn fékk sáttatillöguna í hendur og hefur beitt henni í opinberum málflutningi sínum enda þótt tillögunni væri með öllu hafnað á kennarafundi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.
[- – -]
Gagnrýni formanns siðanefndar HÍ í Morgunblaðinu 8. des. sl. er sorglegur vitnisburður um þekkingarleysi á því hvað felst í kennslu á sviðum hug- og félagsvísinda.

Sama dag, 13. desember 2011, birti Morgunblaðið tvær fréttir þar sem málflutningur Vantrúar kom fram. Í annarri þeirra, Skorti fagleg vinnubrögð, er grein á vef Vantrúar endursögð, þar sem því er haldið fram að háskólakennararnir hafi ekki sýnt fagleg og akademísk vinnubrögð því enginn þeirra hafi talað við félagið Vantrú um málið. Í hinni, Málið snúist um útúrsnúninga, er rætt við Matthías Ásgeirsson fyrrv. formann Vantrúar þar sem hann heldur því fram að almennt viðhorf félagsmanna í Vantrú hafi verið að „senda þyrfti siðanefnd HÍ erindi háskólans sjálfs vegna.“  Megintilefni til kæranna [Vantrú kærði Bjarna Randver fyrir þremur mismunandi aðilum innan Háskóla Íslands] sé afbökun Bjarna Randvers, skv. tilvitnun í Matthías í lok greinarinnar: „Við teljum að Bjarni Randver hafi beinlínis afbakað upplýsingar þegar hann tekur tilvitnanir frá okkur eða klippir þær í sundur. Við sjáum ekki Vantrú í þessari kennslu. Hann tekur ekkert af greinum okkar eða því sem félagið hefur sagt opinberlega,“

Í hádeginu þann 13. desember 2011, sama dag og yfirlýsingar háskólakennara höfðu birst í fjölmiðlum, sendi Ingvar Sigurgeirsson, ad hoc formaður siðanefndar HÍ í kærumálinu gegn Bjarna Randver, bréf á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands. Helstu atriði þess bréfs voru rakin í frétt RÚV daginn eftir, Leggur til að Bjarni fái bætur. Í fréttinni segir eftir Ingvari að: 

Það hafi verið verkefni siðanefndarinnar að kynna sér málið til hlítar. Þau áform hafi þó ekki náð fram að ganga, þar sem Bjarni sjálfur hafi kosið að ræða ekki við nefndina og hafi talið nefndarmenn alla vanhæfa. Þá bendir hann á að nokkrir þeirra sem undirita yfirlýsinguna hafi með formlegum hætti lagst gegn því að nefndin fengi tiltekin gögn í málinu.
[…]
Ingvar segir umræðuna hafa einkennst af hroka. Á öllum stigum málsins hefði verið hægt að leysa það með yfirvegaðri og málefnalegri samræðu. Þá leggur hann til að Bjarni Randver fái sanngjarnar bætur vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir en bendir jafnframt á að málið hafi skaðað marga aðra, sem og skólann.

Á vef Vantrúar var bréf Ingvars birt í heild sama dag og RÚV birti sína frétt, undir titlinum Yfirlýsing frá Ingvari Sigurgeirssyni. (Óvíst er hvort Ingvar Sigurgeirsson gaf leyfi fyrir þessari birtingu. Lesendum er bent á að Vantrú hefur lokað aðgangi að sínum vef sé hann heimsóttur af mínu bloggi.) Svo sem nokkuð hefur borið á góma í umræðuþráðum við bloggfærslur mínar er það í þessu bréfi sem Ingvar lýsir því að formaður Vantrúar [Reynir Harðarson sálfræðingur] hafi orðið „hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess.“

Gæðanefnd og Kennslumálanefnd Háskóla Íslands ásamt vísindanefnd háskólaráðs stóðu fyrir málþingi um akademískt frelsi í kennslu og rannsóknum föstudaginn 27. janúar 2012, í samræmi við ákvörðun Háskólaráðs þann 13. október 2011. Málþingið fór fram í Öskju og þar ræddu fjórir prófessorar af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands um akademískt frelsi út frá mismunandi sjónarhornum. Sjá má myndband af málþinginu á síðu Kennslumiðstöðvar Háskólans og myndband af umræðum að loknum fyrirlestrum.
 

Þann 15. febrúar 2012 lýsti Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor því yfir í bréfi sem hún sendi á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands að „ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi.“  Með þessu er hún líklega að „bregðast við því að ekki fékkst efnisleg niðurstaða í málið“ sem hún segir að sé „bagalegt“ og að ljúka málinu. Í bréfinu kallar hún kæru Vantrúar „umkvörtun“. (Sjá fréttina Var ekki brotlegur í starfi í Morgunblaðinu 16. febrúar, þar má finna bréf Kristínar í heild. Feitletrun er mín.) RÚV birti frétt um þetta sama bréf þann 19. febrúar 2011, Tryggja að málið endurtaki sig ekki. Það sem háskólarektor telur að tryggi að svona mál endurtaki sig ekki er: „Við höfum endurskoðað starfsreglur siðanefndarar og formfestu sem varðar málsmeðferð og ég held að við séum búin að fullvissa okkur um það að atburðarás af þessu tagi endurtaki sig ekki.“

Endurskoðaðar starfsreglur siðanefndar HÍ má sjá neðst í þessu skjali. Breytingar / endurskoðunin er innan hornklofa og stjörnumerkt. Veigamesta breytingin með hliðsjón af málarekstri siðanefndar í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni er viðbótin framan á fjórðu grein starfsreglnanna: „[Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún]* hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.“

Skipunartími siðanefndarfulltrúa er þrjú ár. Í siðanefnd Háskóla Íslands sitja núna:
 

  • Þórður Harðarson prófessor emeritus, formaður nefndarinnar, skipaður af Kristínu Ingólfsdóttur háskólarektor sumarið 2010; 
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir sem situr fyrir hönd Félags háskólakennara frá því snemma í desember 2012. Sumarið 2010 skipaði Félag háskólakennara Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og kennara í heimpeki sem fulltrúa í siðanefnd HÍ. Salvör sagði sig úr siðanefndinni seint á haustmisseri 2011 og úr varð að Eyja Margrét, kennari í heimspeki, tók sæti hennar.
     

  
  
  
  
  
 

11 Thoughts on “Skýrsla óháðu nefndarinnar og eftirmál

  1. Andrés B. Böðvarsson on February 22, 2012 at 09:10 said:

    Spurning hvort þú takir saman eina færslu um viðbrögð Vantrúarmanna við þessum greinaflokki. Það væri fróðleg samantekt. Ég sakna þess reyndar að þeir reyni að svara því sem hér kemur fram efnislega. Mér hefur sýnst umræðan af hálfu Vantrúar einkennast frekar af útúrsnúningum og því að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur í eltingaleik við aukaatriði. Þeir byrjuðu reyndar ágætlega:
    http://www.vantru.is/2012/01/17/10.00/

    (Ýmsar leiðir eru til framhjá barnalegri lokun á tengla yfir á vantru.is og orvitinn.is:
    hægrismella og velja new tab
    Mac: cmd+click
    Win: ctrl+click (geri ég ráð fyrir)
    Smella í vefslóðargluggann og ýta á enter (reload virkar ekki))

  2. Viðbrögð Vantrúar við þessum greinaflokki? Félagið sjálft hefur ekki sýnt mikil viðbrögð, minnir að það sé ein grein á síðunni þeirra (þessi sem þú linkar í), aðallega um að ég greini Vantrú ekki rétt og svo þetta venjulega *hafði ekkert samband við Vantrú* tal. Önnur viðbrögð hafa verið að loka aðgangi að vef Vantrúar af þessari bloggsíðu og svo fúkyrðaflaumur á umræðuþræði við færslu Matthíasar Ásgeirssonar. Ég hef tengt í þann þráð a.m.k. einu sinni úr athugasemd og læt það duga enda kemur þar fátt nýtt fram. Mér finnst aðallega merkilegt að fullorðnir menn skuli láta svona svívirðingar út úr sér á opinberum vettvangi og hve orðaforði þeirra er fátæklegur.

    Svo svarið við spurningunni er neitandi.

    Nú er eftir að skrifa yfirlitsfærslu og koma síðan þessum færslum fyrir í eitt plagg sem menn geta hlaðið niður ef þá lystir. Af því í færslunum er linkað út og suður er heppilegast að setja þær upp í pdf-skjal, rafbók er slæm umgjörð um svona færslur.

  3. Helgi Ingólfsson on February 22, 2012 at 22:37 said:

    Sæl Harpa.

    Kærar þakkir fyrir það þrekvirki sem þú hefur unnið. Einhver lét svo um mælt að pistla þína ætti að gefa út á bók til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvernig megi spyrna við fótum gegn vá pólitískrar rétthugsunar.

    En það var ekki málið sem ég vildi ræða. Í gærkvöldi tók ég mig til og las til hlítar þær rökræður, sem Vantrúarmenn vitna ítrekað í, til að bera nafn Guðbergs Ísleifssonar út á hræsibrekkur (http://kt.blog.is/blog/kt/entry/1078045/), en þær áttu sér stað sumarið 2010 á milli Guðbergs og Kristins Theódórssonar (sem þá var félagi í Vantrú, held ég) um trú, trúleysi og siðferði. Eftir að hafa lesið færsluna í þaula skil ég biturð Guðbergs í garð félagsins öllu betur. Reyndar verð ég að játa fyrst af öllu að mér þykir heldur óskynsamlegt að leggja út í rökræður um trúmál; þar er um að ræða afturhvarf til skólaspeki Abelards og Aquinos, sem hefur tilhneigingu til að enda í þvættituggu, hártogunum og stagli um að hvorki megi sanna eða afsanna tilvist almættis.

    Hvað um það, þeir Guðbergur og Kristinn öttu kappi sumarið 2010 og settu sér tilteknar reglur, þar sem reiknað var með að þeir tveir einir ættust við í orðaskylmingum á meginþræðinum, en jafnframt yrði haldið gangandi athugasemdahala meðfram. Þessar rökræður eru athygliverðar í alla staði. Þegar Vantrúarmönnum/-áhangendum, sem fylgdust með, þótti hægt ganga og rök Guðbergs ekki rísa undir væntingum, birtust þeir einn af öðrum inni á umræðuþræðinum, eins og dýrin sem flykkjast að vatnsbólinu, svo að vitnað sé í fræg ummæli. Hæddust þeir að Guðbergi á ýmsa vegu og virtu á engan veg upphaflegar reglur, þar til hann um síðir þraut þolinmæðin, reiddist og lét ýmislegt fjúka sem betur hefði verið látið ósagt. Við það virtust viðmælendur hans fyllast þórðargleði og héldu áfram að pota í sárin – það ber þó að virða meginviðmælandanum, Kristni, til vorkunnar að hann tók ekki þátt í þeirri hegðan (þótt hann beri ekki heldur í bætifláka fyrir hana).

    Síðan þessar rökræður áttu sér stað, hafa sumir Vantrúarmenn nýtt hvert tækifæri til að koma á framfæri þeirri skoðun að Guðbergur sé “truflaður”, “ruglaður”, “galinn” eða “geðbilaður”. Að mínu mati er um að ræða einkar óverðskuldugan óhróður. Á hitt ber að líta að félagið Vantrú lýtur öruggri forystu sálfræðimenntaðra manna, sem ættu að geta metið geggjunarstimpil stallbræðranna, ekki síður en að sama forysta geti skorið úr um hvers eðlis “háð” og “all-out attack” eru. Athyglisverð fannst mér sú staðreynd að þótt rökræðurnar megi enn finna á vefnum, þá virðist umræðuhalinn við þær horfinn – sem vekur forvitni um hvað hann innihélt, sem vart þolir dagsins ljós, eða hvers vegna sú halaklipping átti sér stað.

    Vegna dugnaðar þíns við þá umfjöllun, sem þú ert við að ljúka, flaug mér í koll að þú ættir ef til vill að líta einnig á þessar umræður Guðbergs og Kristins, og athuga hvort þú sjáir einhver líkindi með framferði Vantrúarmanna/-áhangenda á þeim umræðuþræði og málflutningi Vantrúar gagnvart stundakennaranum í Háskóla Íslands. Einnig mætti reyna að grafast fyrir um hvað stóð í hinum útþurrkaða athugasemdahala.

    Ég játa purrkunarlaust að ég skil Guðberg mætavel, enda hef ég, af hendi Vantrúarmanna eða aðilum tengdum félaginu, mátt sæta aðkasti, þöggunartilburðum, hótunum, upplognum sökum og uppgerðum skoðunum. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég dæmi félagið allt ekki á grundvelli ósæmilegrar hegðunar einstakra félagsmanna eða áhangenda þeirra.
    —–

    P.S. Sumir Vantrúarmenn gefa sig út fyrir að vera ofurmenni þegar kemur að tölvum. Samt gætti félagið ekki nógu vel þeirra djásna sínna sem “innra spjall” þeirra var. Flinkir tölvugaurar atarna, maður!

  4. Nei, veistu Helgi að ég held ég leggi ekki í þennan þráð sem þú bendir á. Ætti að vera auðvelt að finna allt heila galleríið óklippt á Vefsafninu … en ég er bara búin að lesa það mikið eftir (örfáa) einstaklinga í Vantrú upp á síðkastið að ég er búin að fá mig fullsadda af þeirra “argumentasjón”, sem virðist yfirleitt alltaf eins. Þetta væri kannski gott verkefni í orðræðugreiningu fyrir einhvern háskólanemanda eða greiningu á neteinelti (cyber-bullying) fullorðinna.

    Guðbergur má lýsa skoðun sinni á mínum umræðuþræði eins og hver annar. Hann hefur hingað til fjallað um efni sem tengist færslunum en vissulega hefur hann nokkuð vitnað í eigin reynslu af félaginu Vantrú til samanburðar. Ég sé ekkert að því. Aftur á móti virðist það eins og að veifa rauðri dulu framan í naut þegar Guðbergur tjáir sig, a.m.k. eins og að veifa rauðri dulu framan í Þórð Ingvarsson, ritstjóra vefs Vantrúar, því í kjölfarið fylgir yfirleitt hali af ómálefnalegum athugasemdum Þórðar.

    Mér hefur fundist Kristinn Theódórsson vera málefnalegur í sínum athugasemdum og hef haft mjög gaman af því að lesa þær. Sama gildir um fyrrum nærsveitung minn, Brynjólf Þorvarðarson/Þorvarðsson. En Kristinn er hættur í Vantrú og Brynjólfur virðist hafa dregið sig í hlé frá þessum félagsskap.

    Að mati þeirra fáu Vantrúarfélaga sem mest hafa sig í frammi á Vefnum eru ákaflega margir geðbilaðir, sturlaðir eða jafnvel snargeðbilaðir. Það hlýtur að vera erfitt hlutskipti að vera meðal þeirra örfáu með fúlle femm í heimi sem er fullur af geðbiluðu fólki 😉

    Ég var einmitt svolítið að spöglera í þessari sálfræðilegu handleiðslu í stjórn Vantrúar þegar ég las fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar. Skrifaði meira að segja Pétri Tyrfingssyni formanni Sálfræðingafélags Íslands og bað hann að athuga hvort samræmdist siðareglum SÁL að félagsmaður þar skipulegði heilagt stríð og einelti gegn einum manni, í frístundum. (Þótt almennt finnist mér ekki að starf manna eigi að hefta þá í tjáningu þá eru þar vissulega mörk). Bað Pétur líka að kanna hvort Reynir Harðarson sálfræðingur hefði virkilega skrifað þetta og undir hvaða kringumstæðum því mér þótti þetta alvarlegt mál.

    Pétur virti mig ekki svars. Kannski fær hann of mikinn tölvupóst til að gefa sér tíma í að svara konu út á landi? En seinna, þegar ég fór að skoða þetta mál, kom í ljós að þeir Pétur og Reynir eru gagnkunnugir: Þeir stunduðu saman framhaldsnám í HÍ til cand.psych gráðu og voru í fyrsta (mjög fámenna) hópnum sem útskrifaðist með þessa gráðu frá HÍ. Báðir hafa nokkuð starfað fyrir SÁÁ (Reynir hefur sinnt meðferð spilafíkla en Pétur vann sem áfengisráðgjafi – mig minnir samt að á tímabili hafi Pétur haft einhvern áhuga á spilafíkn einnig) og báðir eru í Siðmennt, Pétur var meira að segja sæmdur einhverri heiðursviðurkenningu Siðmenntar í fyrra eða hittifyrra. Svoleiðis að það var í sjálfu sér ekkert skrítið að Pétur hefði lítinn eða engan áhuga á að kanna hvort hegðun Reynis, eins og hún er höfð eftir honum á innra spjalli Vantrúar og kom svo fram í greinaskrifum og athugasemdum á vef félagsins, gæti mögulega stangast á við siðareglur Sálfræðingafélags Íslands. Enda tók Pétur líka undir málflutning Vantrúar á bloggi Valgarðs Guðjónssonar vantrúarfélaga, talaði þar eitthvað um grænsápuguðfræði (man ekki orðalagið og nenni ekki að fletta þessu upp) og hve guðfræði- og trúarbragðadeild væri ómerkileg deild sem Háskólinn þyrfti að losa sig við.

    Varaformaður Vantrúar er nú bara með BA í sálfræði og spurning hvað hann hefur lært mikið meira en ýmsa aðferðafræði og helling um dúfur. Hann vinnur hjá Mannviti, hugsanlega eitthvað við tölvur. Þeir eru soldið fyrir tölvur, þessir forkólfar Vantrúar, og virðast halda að kunnátta í tölvumálum sé ægilega merkileg. Mér finnst sú kunnátta jafn merkileg og kunnátta þvottavélarviðgerðamanna, bifvélavirkja, rafvirkja og annarra sem kunna á einhverjar græjur; sumsé góð kunnátta en alla jafna ekki eitthvað sem fólk gumar sérstaklega af. Ég gæti trúað að Valgarður Guðjónsson sé nokkuð flinkur í tölvumálum en efast um að þeir hinir séu einhverjir snillingar.

    Nú var ég að henda inn lokafærslunni: Samantekt á því sem ég hef verið að fjalla um. Næsta skref verður að taka saman umfjöllun, edítera lítilsháttar (a.m.k. keyra gegnum Púkann) og birta í pdf-skjali til niðurhals þeirra sem langar að lesa um hvernig Vantrú lagði stundakennara í HÍ í einelti og naut til þess á tímabili fulltingis siðanefndar HÍ. Og þá merkilegu staðreynd að sömu karlarnir sitja enn í siðanefnd HÍ.

  5. Guðbergur Ísleifsson on February 23, 2012 at 01:02 said:

    Sæll, Helgi, ég verð að svara þessu og leiða þig örlítið dýpra inn í sannleika málsins því hann er sannarlega ekki allan að finna í þessari “samantekt” Kristins Theódórssonar sem þú vísar í. Hún er einhliða frá honum komin, segir langt í frá alla söguna og hann bæði breytir í henni raunverulegri atburðarás og hallar um leið réttu máli gróflega. Síðan meinaði hann mér á sínum sínum tíma að gera athugasemdir við rangfærslurnar í henni.

    Það er ástæða fyrir því að Kristinn þurrkaði út allar upphaflegu heimildirnar um þetta mál á síðu sinni því þær sýna hvað gerðist í raun og veru og um leið myndu þær afhjúpa hvernig Kristinn hreint og beint falsar atburðarásina í “samantekt” sinni. Enga aðra ástæðu hafði Kristinn til að stroka út upprunalegu heimildirnar en þá að fela sannleikann.

    Það er að sjálfsögðu allt of langt mál að fara yfir allt málið í heild hér á athugasemdarþræði á bloggi Hörpu, en eftirfarandi er það sem gerðist í stuttu máli og Kristinn sleppir algjörlega að segja frá:

    Eins og þú bendir á þá þverbraut Kristinn það samkomulag sem gert hafði verið um umgjörð þessara “rökræðu” sem þarna hafði verið ákveðið að færi fram.

    Á einum tímapunkti sagði hann síðan umræðunni lokið af sinni hálfu nema ég breytti mínu máli og lét sig síðan hverfa frá henni. Um leið hleypti hann hverjum sem var inn á þráðinn, þótt um það væri skýrt samkomulag um að það mætti alls ekki.

    Eftir að hafa beðið í hátt í tvo sólarhringa eftir að Kristinn sneri aftur gafst ég sjálfur upp og lýsti því yfir á mínu bloggi að þar sem Kristinn hefði hlaupist frá umræðunni og þverbrotið samkomulag okkar þá væri þeim endanlega lokið.

    Þá gerðist það sem hleypti öllu í bál og brand.

    Kristinn gerði sér lítið fyrir, fór í umræðuþráðinn, strokaði út hina raunverulegu atburðarás, breytti rest og bætti svo við hana frá eigin brjósti algjörum skáldskap. Hann lét líta svo út á þræðinum að það hefði verið ég sem hefði hlaupið frá umræðunni, ekki hann.

    Þetta uppgötvaði ég ekki fyrr en Kristinn birtist í athugasemdarþræði á mínu bloggi og sagði það lygi í mér að hann hefði ekki viljað halda áfram. Máli sínu til stuðnings vísaði hann auðvitað í hinn falsaða þráð sinn. Sjálfur sagðist hann hafa beðið og beðið eftir að ég héldi áfram og að sér hefði aldrei verið neitt að vanbúnaði.

    Þetta var eins ósatt og það gat orðið og fyrst varð ég alveg gjörsamlega gáttaður á óheiðarleik Kristinns. Síðan reiddist ég mjög yfir því hvernig hann hafði skrumskælt og falsað þráðinn, ekki bara sér í vil, heldur fyrir það hvernig lét hann hélt því nú fram og lét líta út fyrir að ég væri lygarinn í málinu og að það hefði raunverulega verið ég sem hefði gefist upp og hlaupið frá rökræðunni, ekki hann.

    Þarna fannst mér gróflega vegið að mér, heiðri mínum og mannorði.

    Ég skrifaði blogg um málið og sagði þar skýlaust frá því hvað Kristinn hefði gert, lýsti því yfir að hann hefði falsað umræðuna gróflega sér í vil og væri um leið orðinn óheiðarlegasti bloggari sem ég hefði komist í kynni við. Ég kallaði hann í færslu minni bæði falsara og mannorðsmorðingja fyrir vikið.

    Kristinn hringdi þá í stjórnendur blog.is og kvartaði undan manninum sem kallaði hann mannorðsmorðingja.

    Hann var svo heppinn að ég og Árni Matthíasson, stjórnandi blog.is, höfðum átt í deilum nokkrum árum fyrr. Árni greip þarna tækifærið, beitti Soffíu, meðstjónanda sínum á blog.is fyrir sig, og lét hana loka bloggi mínu án nokkurrar viðvörunar til mín. Lét svo Soffíu senda mér póst þar sem sagði að ég myndi aldrei fá inngöngu á blog.is aftur.

    Við þetta kættust Vantrúarmenn ógurlega og þótt þeir vissu allir sannleikann í málinu þar sem þeir höfðu allir fylgst með þræðinum, fóru þeir nú af stað með þvílíkar árásir á mig, allir sem einn, að mér varð endanlega nóg boðið og sór þess eið að láta svona ribbalda aldrei aftur í friði þegar þeir réðust með sama hætti á annað fólk og þeir réðust þarna á mig. Þeir misbuðu þarna réttlætiskennd minni algjörlega og gera enn.

    Málið varðandi lokun blog.is á bloggi mínu og eftirmálin er að sjálfsögu mun ítarlegra en ég fer út í hér, enda fóru um leið í gang umræður á mörgum bloggum um það. Vandi minn var sá að enginn óvilhallur bloggari hafði orðið vitni að hinni raunverulegu atburðarás og því komust bæði Kristinn, sem var meðlimur í Vantrú á þessum tíma, og aðrir Vantrúarmeðlimir upp með þvílíkar rangfærslur og lygar um mig og í minn garð og ófrægingaherferð að ég naut hvergi sannmælis.

    Kristinn tók sig skömmu síðar til, strokaði út allar mögulegar heimildir um gjörning sinn, endurlífgaði umræðuþráðinn án þess að leiðrétta samhengið í honum og skrifaði svo tvær eða þrjár “skýringar” um málið þar sem hann hallaði því algjörlega sér í vil til að láta mig líta eins illa út og hann gat. Um leið lokaði hann á aðgang minn að sínu bloggi svo ég gæti ekki gert þar neinar athugasemdir við “skýringar” hans og komið sannleikanum á framfæri.

    Ég hef lengi ætlað mér að setja upp og birta alla þessa atburðarás í heild því sem betur fer hafði ég vit á því að taka afrit af öllu, þar á meðal þeim síðum sem Kristinn strokaði út. Hins vegar hefur mig dálítið skort áhugann á því ég hef alltaf vitað að það yrði eins og að hrópa í eyðimörkinni og því kannski ekki þess virði að eyða í það tíma.

    En kannski er nú kominn tími til að gera þetta og setja upp vefsíðusafn eins og Harpa hefur gert svo þeir sem áhuga hafa á geti kynnt sér þá grófu aðför sem að mér var gerð þarna og er enn í gangi. Það myndi jarða málflutning Vantrúar í minn garð í eitt skipti fyrir öll, sérstaklega núna, þegar aðförin að Bjarna er orðin ljós og allir sjá hvaða aðferðarfræði er þarna í gangi og hvað þeir gera til að koma höggi á æru fólks.

    Og fyrir utan mitt mál og Bjarnamálið, hafa Vantrúarmenn mörgum sinnum gert viðlíka aðför að öðrum í gegnum árin. Ein sú grófasta var aðförin að Gylfa í Símabæ. Henni mætti svo sannarlega gera skýr skil líka, fyrir utan auðvitað þá staðreynd að Matthías breytti þeirri atburðarás líka eftirá, líkt og Kristinn hafði gert í mínu tilfelli, til að mála yfir sannleikann.

    Þess má líka geta, eins og ég hef áður minnst á, þar á meðal í umræðuþræði sem ber nafn mitt á orvitinn.com, að Matti hefur haldið uppteknum hætti og falsar hiklaust umræðuþræði eftir á ef honum líkar ekki útkoman úr þeim. Það gerði hann m.a. í umræðum um “sekt” Bjarnar á vantru.is þegar ég mótmælti því að Bjarni hefði gert eitthvað rangt með tilvitnun sinni í orð Matta. Þegar þeirri umræðu var lokið, tók Matti sig til og klippti þráðinn út og suður svo enginn sæi atburðarásina eins og hún var. Samt fullyrðir hann á innra spjallinu og lætur fólk halda að hann hefði klippt þetta um leið og þetta gerðist. Sjá orvitinn.com þar sem ég linkaði á þetta og enginn í Vantrú hefur nokkurn tíma séð nokkuð athugavert við að skyldi hafa verið gert.

    Þennan umræðuþráð ætti ég að setja aftur upp eins og hann var, fyrir fölsun Matta, svo menn geti borið saman sannleikann við fölsun Matta og séð hversu gróflega óheiðarleg þessi vinnubrögð hans eru og við hverju er að búast í umræðu við hann og á vantru.is fyrir þá sem eru ekki sammála sjónarmiðum þeirra.

    Ég hef þetta ekki lengra hér, en vil þakka þér, Helgi, fyrir tilraunina til að skoða málið og sjá mína hlið. Það hefur enginn annar gert. Vertu samt meðvitaður um í ljósi þinnar eigin reynslu að þú sérð aldrei nema í besta falli hálfsannleikann í þessu máli Vantrúar gegn mér, en miklu oftar beinar rangfærslur og ósvífnar lygar þegar þú lest hvað Kristinn eða aðrir Vantrúarmeðlimir segja um það.

    Ég skal láta þig vita þegar ég er búinn að setja upp vefsíðusafn um þetta mál þar sem allan sannleikann verður að finna í óklipptri atburðarás og tímaröð.

  6. Það er ósatt sem Bergur Ísleifsson heldur hér fram að ég hafi falsað umræður á Vantrú.is. Meira segi ég ekki um það.

  7. Andrés B. Böðvarsson on February 23, 2012 at 13:38 said:

    Það væri ágætt hjá þér, Bergur, ef þú myndir birta þetta afrit þitt af umræðunni við Kristin. Þessar ásakanir koma mér á óvart enda hefur Kristinn hingað til virkað á mig sem heiðarlegur maður. Ekki það að ég rengi endilega þína frásögn. Ég einfaldlega get ekki dæmt til eða frá nema a.m.k. að sjá afritið þitt.

  8. Guðbergur Ísleifsson on February 23, 2012 at 13:48 said:

    Já, ég skal gera það, Andrés, sýna þér og öðrum þetta svart á hvítu. Hef lengi ætlað að gera það, setja þetta upp altso. Sendu mér póst á gbergur hjá gmail punktur com og ég skal láta þig vita hvenær ég er búinn.

    Matti: Þú ferð í umræðuþráð sem er lokið … klippir helminginn út úr honum hist og her og setur á spjallið þannig að hvorugur helmingurinn sýni heildarmyndina. Þetta er falsið. Fólk sem kemur á þráðinn veit ekki að helmingurinn af honum hefur verið klipptur annað.

    Hvaða ástæðu hefur þú til að fara í umræðu sem er búin og breyta henni eftirá nema til að fólk sjái ekki heildarmyndina af því sem þarna átti sér stað?

    Vertu ekki svona barnalegur.

  9. Jiminn eini, er þetta einkennilega mál okkar Guðbergs nú aftur að dúkka upp!

    Guðbergur varð mér afar reiður þarna um árið og túlkar ákveðna atburðarás öðruvísi en ég geri. Síðan þá hefur mörgum bloggum hans verið lokað vegna stóryrtra yfirlýsinga hans um mig. MBL.is lokar ekki á annan tug blogga eins og sama einstaklings, nema hann sé að ganga dálítið langt og það gerði Guðbergur.

    Nú er hinsvegar mikið vatn runnið til sjávar og engin ástæða til að vera að ergja sig á þessu máli á einn veg eða annan lengur. Ég mun að minnsta kosti ekki taka þátt í því ergelsi.

    Hafi ég gert á hlut Guðbergs er hann löngu búinn að refsa mér hressilega fyrir það með ruddalegum skrifum um mig. Við hljótum því bara að teljast vera búnir að skuldajafna.

    Og ekki orð um það meir frá mér 🙂

  10. Guðbergur Ísleifsson on February 23, 2012 at 15:42 said:

    Kristinn … Vantrúarmenn vísa stöðugt í þetta mál. Best að gera það bara upp í eitt skipti fyrir öll. Og þú veist vel að bloggum mínum var ekki lokað vegna stóryrða. Ég er margbúinn að segja hvað gerðist en þið haldið bara áfram sömu tuggunum og lygunum og vísið í eigin skrif en hafið strokað út heimildirnar.

    Kominn tími til að sýna atburðarásina óklippta.

  11. Guðbergur o.fl.: Vinsamlegast gerið þessi mál upp annars staðar en á umræðuþræði við mitt blogg. Þessi atburðarás sem Guðbergur, Matthías og Kristinn eru nú teknir að ræða kemur efni færslunnar minnar ekki við þótt upphaflega hafi verið bent á hana sem mögulega sambærilega orðræðu við málflutning Vantrúar gegn Bjarna Randver.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation